Í nýjasta hefti Þjóðmála skrifað Jakob F. Ásgeirsson um þróun Morgunblaðsins í tilefni ritstjóraskipta á blaðinu.
Fyrir þá sem tengst hafa Morgunblaðinu sæta ritstjóraskiptin þar á bæ nokkrum tíðindum. Vægi blaðsins í þjóðlífinu hefur hins vegar minnkað mjög á undanförnum árum. Blaðið hefur smám saman horfið frá þeirri stefnu og málflutningi sem gaf því mest vægi á fyrri tíð eins og áður hefur verið fjallað um hér í Þjóðmálum. Nú á dögum þrenginga í efnahagslífinu og brýnnar nauðsynjar á aðhaldi í ríkisrekstrinum hefur blaðið til dæmis hvað eftir annað lýst yfir því að það telji Jóhönnu Sigurðardóttur bera af öðrum ráðherrum. Hún sé í rauninni eini ráðherrann sem standi í stykkinu og aðrir ráðherrar eigi að taka sér hana til fyrirmyndar.
Ósk Morgunblaðsins í upphafi 21. aldar er sem sagt sú að allir 12 ráðherrar ríkisstjórnarinnar verði sem líkastir þeim ráðherranum sem fastast heldur í gamlar kreddur sósíalista og sýnist líklegastur til að vilja beita sér fyrir hömlulausum ríkisútgjöldum af því tagi sem leiddu til skuldasöfnunar og óðaverðbólgu á liðinni öld. Morgunblaðið óskar með öðrum orðum eftir vinstri stjórn í anda Jóhönnu Sigurðardóttur. Sem betur fer hefur flokkur Jóhönnu þó lært ýmislegt af því sem Morgunblaðið hélt fram um stjórnmál á árum áður og er því ekki líklegur til að líta svo á að hennar „tími sé kominn“, þótt ritstjóri Morgunblaðsins telji að svo sé. Raunar kemur varla upp það mál í þjóðfélaginu, að Morgunblaðið heimti ekki að ríkið auki útgjöld sín til viðkomandi málaflokks, þótt á milli sé kvartað yfir því að stjórnmálamenn taki ekki á verðbólguvandanum. |
Þetta er fróðleg lýsing á þróun Morgunblaðsins frá gömlum starfsmanni þess þótt hún komi sjálfsagt engum í opna skjöldu lengur.
Hitt er ekki síður umhugsunarefni það sem Jakob rifjar upp að hömlulaus ríkisútgjöld áttu mikinn þátt í því að verðbólga fór úr böndunum fyrr á árum. Nú hafa útgjöld hins opinbera aukist með ævintýralegum hætti undanfarin ár. Svo mikil er þessi aukning að þrátt fyrir stórauknar skatttekjur af auknum umsvifum í efnahagslífinu gæti komið verulegur halli á ríkissjóð á næsta ári. Þá væru menn komnir í gamla far verðbólgu og skuldasöfnunar.