Þriðjudagur 8. júlí 2008

190. tbl. 12. árg.

N ú er þröngt í búi hjá ríkisstofnunum. Á vef Orkustofnunar er til dæmis lýsing á þessu harðræði. Aðeins tveir starfsmenn stofnunarinnar eru staddir í Níkaragúa um þessar mundir og verða þar vart nema þrjár vikur en það eru jarðhitafræðingur og laganemi Orkustofnunar.

Forsætisráðherra hvatti til þess í þjóðhátíðarræðu sinni að landsmenn spöruðu við sig sunnudagsbíltúra og önnur ferðalög. Iðnaðarráðherra svarar með því að senda laganema í þrjár vikur til jarðhitarannsókna í Níkaragúa.

Utanríkisráðherra er einnig löglega forfölluð þar sem hún hefur síðan verið í Sýrlandi að stilla til friðar í Mið-Austurlöndum og sama má segja um marga aðra ráðamenn. Þingmenn þeytast um heiminn og embættismenn leggja sín lóð á vogarskálarnar með stífum fundahöldum um heim allan.

Þá sjaldan tóm gefst til að koma hingað til lands þá missa þeir af flestum sparnaðarræðum forsætisráðherra, því allir þurfa þeir að sitja vikulegar ráðstefnur í norræna húsinu þar sem stjórnmálafræðingur með MA-gráðu í mannauðsstjórnun heldur fyrirlestur um forystu smáþjóða fyrir landnámi á Mars.

Það sem veldur Vefþjóðviljanum þó mestum áhyggjum í öllu þessu máli er hvað gerist í haust þegar kennsla hefst á ný í lagadeildinni. Hvað verður þá um orkuútrás ríkisins til Níkaragúa? Ætli það komist á forsíður allra dagblaða landsins þegar laganeminn sest aftur á skólabekk líkt og þegar nokkrir starfsmenn REI, allir titlaðir framkvæmdastjórar að vísu, hurfu á braut í síðustu viku?

En kannski verður bara auglýst eftir nýjum starfsmanni eins og fyrirtæki gera gjarnan og ríkisstofnanir gera alltaf þegar menn láta af störfum. Orkustofnun óskar eftir að ráða röskan ferðalaganema til starfa.