Mánudagur 2. júní 2008

154. tbl. 12. árg.

E ins og Vefþjóðviljanum vék að fyrir skemmstu leiddi stríð ríkisins við viðskiptabankana með Íbúðalánasjóð að vopni að líkindum til verðbólu á fasteignamarkaði. Eitt af því sem gert var til að undirbúa sjóðinn sem best undir átökin við bankana var að gefa út nýja tegund skuldabréfa, íbúðabréf, til að fjármagna sjóðinn. Íbúðabréf eru frábrugðin húsbréfum sem áður voru notuð til að afla Íbúðalánasjóði fjár að því leyti að sjóðurinn hefur ekki heimild til að greiða þau hraðar upp en gert er ráð fyrir í upphafi. Með þessu móti tókst sjóðnum að afla lánsfjár á lægri vöxtum og þar með að lækka vexti á útlánum til íbúðakaupa.

Sá galli er hins vegar á að flestir lántakendur geta greitt lán upp hraðar en upphaflega er gert fyrir. Þannig má búast við því að ef vextir lækka umtalsvert muni lántakar greiða upp lán sín og taka önnur á hagstæðari vöxtum. Íbúðalánasjóður getur ekki greitt upp lán á móti og mun að öllum líkindum ekki geta ávaxtað féð jafn vel og skuldir sínar. Með þessu móti getur Íbúðalánasjóður tapað gríðarlegu fé á stuttum tíma. Sjóðurinn hefur reyndar velt hluta af þessari áhættu yfir á lántaka með því að bjóða lán með uppgreiðslugjaldi. Þetta uppgreiðslugjald getur auðveldlega orðið 10-20%. Af þeim lánum sem ekki er uppgreiðslugjald er tap sjóðsins af uppgreiðslu svipað. Heildarútlán sjóðsins um síðustu áramót voru 467 milljarðar. Tap Íbúðalánasjóðs vegna uppgreiðslna getur því hæglega hlaupið á tugum milljarða og er hætt við að eigið fé sjóðsins, um 20 milljarðar yrði fljótt að gufa upp við slíkar aðstæður.