Helgarsprokið 1. júní 2008

153. tbl. 12. árg.

A lþingi samþykkti í maí, að banna með lögum framsal á orkuauðlindum frá opinberum aðilum til einkaaðila. Að auki bannaði þingið með lögum að einkaaðilar gætu átt meirihluta í dreifi- og hitaveitum sem þurfa sérleyfi til starfsemi sinnar. Einhver kynni að spyrja hvers vegna löggjafanum þótti nauðsynlegt halda einstaklingum og fyrirtækjum þeirra frá auðlindunum með þessum hætti. Væri kannski stefnt að því að lágmarka arðinn af nýtingu auðlindanna?

Ekki var það ástæðan. Í frumvarpi til laganna sagði m.a.: „Það er engum vafa undirorpið að skynsamleg nýting orkuauðlindanna hefur mikla efnahagslega þýðingu fyrir Ísland.“ Löggjafinn taldi sem sagt að orkan, sem Íslendingar geta framleitt, væri svo mikilvæg fyrir verðmætasköpun í framtíðinni, að algjörlega nauðsynlegt væri að banna framsal orkulindanna til einkaaðila.

Fram kom í frumvarpinu að tveir efnahagsráðgjafar, sem sérstaklega var leitað til við undirbúning frumvarpsins, hagfræðingarnir Friðrik Már Baldursson og Nils-Henrik M Von der Fehr, hafi talið takmörkun á eignarhaldi og framsali „hafa neikvæð áhrif á efnahagslegt virði auðlindanna og hagkvæmni í nýtingu þeirra.“ Svo virðist sem þingheimur eigi því að venjast að Friðrik og Nils snúi málum á haus, því ekki var annað talið koma til greina, í ljósi efnahagslegs mikilvægis auðlindanna, að takmörkun á eignarhaldi yrði yfirgripsmikil og blátt bann lagt við framsali til einkaaðila.

Um þetta voru stjórnarflokkarnir að minnsta kosti sammála. Þeir sem óttuðust að Samfylkingin væri orðin svo nútímalegur lýðræðisflokkur, að hún stæði ekki lengur fyrir gamaldags þjóðnýtingarstefnu, áætlunarbúskap og leníníska sýn á hvernig stjórna ætti grunnatvinnuvegum, gátu sofið rólegir. Og þeir sem skefldust þá tilhugsun að Sjálfstæðisflokkurinn myndi seint ganga gegn stefnu sinni um uppbyggingu atvinnulífs á grundvelli eignarréttar einstaklinga og einkaframtaks, þurftu ekkert að óttast.

Alþingismenn eru vanir að bæta kjósendum upp fjögurra mánaða sumarfrí sitt með því að afgreiða eins mörg lagafrumvörp á færibandi og þeim frekast er unnt á síðustu dögum þings fyrir frí. Í einhverjum tilvikum er þingmönnum í meirihluta kannski vorkunn í annríkinu, að rétta upp hönd í góðri trú um gjörðir félaga sinna og samþykkja frumvörp, sem síðar kemur í ljós að eru til óþurftar og vandræða.

Það verður hins vegar ekki sagt um bannið við framsali á auðlindum. Það samþykktu þingmenn með opin augun. Pétur Blöndal var einn þeirra sem kom Alþingi fyrir sjónir snemma í umræðum hvað verið væri að leggja til:

„Við ræðum mikið miðstýringar- og ríkisvæðingarfrumvarp. Þar er gert ráð fyrir því að ríkið eigi allar orkulindir. Ef það skyldi slysast til að kaupa einhverjar þá má það ekki selja þær aftur. Hið sama gildir um sveitarfélögin. Þetta minnir dálítið á Sovétríkin enda er í greinargerð minnst á rammaáætlun í staðinn fyrir 5 ára áætlun. Þar segir að opinbert eignarhald á auðlindum auðveldi framkvæmd slíkrar stefnumörkunar. Þá er talað um að skynsamleg nýting orkulinda hafi mikið efnahagslegt gildi, þ.e. í hendur ríkisins. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að nýtingin sé betri í höndum ríkisins en hjá einkaaðila, Væri þá ekki skynsamlegt að stofna skóbúð ríkisins o.s.frv.?

Og síðar í umræðum bætti Pétur um betur:

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aftur: Er skynsamleg nýting auðlinda og annarra gæða yfirleitt betri í höndum opinberra aðila, þ.e. embættismanna, en einkaaðila? Ég bara spyr að því. Væri skynsamlegt að opna skóbúð ríkisins eða matvöruverslun ríkisins? Ég bendi á að það er miklu mikilvægara fyrir menn að fá að borða heldur en að fá orku og mætti út frá þessu hafa bensínsölur ríkisins eða matvöruverslun ríkisins, svo ég tali ekki um bújarðir ríkisins, bændabýli ríkisins.“

Hafi einhver þingmaður sofið af sér ræður Péturs Blöndals, eftir alla vökunæturnar, þá hljóta þingmenn vinstri-grænna að hafa hringt öllum bjöllum, en þeir voru lukkulegir með framsalsbannið. Með því voru tekin af öll tvímæli.

Engar grundvallarbreytingar voru gerðar á frumvarpinu í meðförum þingsins. Það leiddi náttúrulega til þess að Pétur og félagar hans í þingflokki Sjálfstæðisflokksins greiddu frumvarpinu atkvæði sitt, utan nokkurra sem fjarstaddir voru atkvæðagreiðsluna. Iðnaðarráðherrann hefur sjálfsagt eftir því sem leið á umræðurnar, af sinni alkunnu málsnilld, svarað spurningum Péturs og sýnt fram á mikilvægi opinbers eignarhalds og ríkisafskipta fyrir verðmætasköpun í atvinnulífi.

Stundum er því haldið fram, að hæstvirtur iðnaðarráðherra sé ekki ýkja staðfastur stjórnmálamaður. Þetta hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins sumir sagt. Hægt hafi verið að ráða í pólitískar vindáttir eftir afstöðu ráðherrans. Ef satt er, þá var það eftir öðru í þessu máli, sem allt virðist hafa verið á röngunni, að gamli þjóðviljaritstjórinn blés á sjálfstæðismenn.