Þ að má segja ýmislegt um heimild Alþingis til lántöku upp á fimmhundruðþúsund milljónir króna. Eitt af því sem sagt hefur verið málinu til framdráttar er að um það sé „þverpólitísk sátt“, það er að segja allir stjórnmálaflokkarnir studdu heimildina til að sökkva ríkissjóði í skuldafen.
En fátt er jafn óhagstætt hagsmunum hins almenna manns og að heimildir til að seilast dýpra í vasa skattgreiðenda séu afgreiddar án gagnrýni í þingsölum. Það ætti með réttu að þeyta flautur almannavarna þegar mál eru að fara gagnrýnislaust í gegnum þingið.
Þannig vildi til að lög um aukna ríkisstyrki til stjórnmálaflokkanna og takmarkanir við því að aðrir en flokkarnir afli sér fjár til stjórnmálabaráttu með öðrum hætti. Frumvarp þess efnis varð að lögum umræðulítið í desember 2006. Lög um fæðingarorlof fóru gagnrýnislaust í gegnum þingið vorið 2000. Eins og spáð hafði verið – af öðrum en stjórnmálamönnunum sem áttu að vanda sig við afgreiðslu málsins – varð kostnaður vegna þessara laga um 180% meiri en gert var ráð fyrir af fjármálaráðuneytinu.
Þegar allir stjórnmálaflokkarnir kvitta einróma undir mál er líka hætt við að handvömm við lagasetningu verði aldrei rædd eða gagnrýnd þegar mistökin koma í ljós. Enginn þingmaður hefur vogað sér að ræða eða gagnrýna hina ótrúlega frammúrkeyrslu fæðingarorlofslaganna og það aldrei verið rætt í þinginu hvernig stendur á því að ríkið hefur hvað eftir annað þurft að bjarga fæðingarorlofssjóði frá gjaldþroti.