Helgarsprokið 11. maí 2008

132. tbl. 12. árg.
Lundúnabúar hafa fengið nýjan borgarstjóra, Boris Johnson að nafni, frjálshyggjumann. Eitt fyrsta verk hans var að banna meðferð áfengis í lestum og strætisvögnum. Þetta er auðvitað alveg rétt ákvörðun hjá hinum nýja borgarstjóra í London. Fólk á ekki að drekka áfengi í þessum almenningsfarartækjum. Það eru aðrir staðir til þess.

Hins vegar vekur athygli, að það skuli vera róttækur íhaldsmaður í Bretlandi, sem grípur til slíks banns. Hér á Íslandi mundu strax koma upp raddir um forræðishyggju og að það ætti ekki að banna fólki að drekka áfengi, ef því sýndist svo. Hins vegar má búast við að talsmenn frjálshyggjunnar hér mundu segja, að auðvitað ætti að fjarlægja slíka drykkjumenn úr almenningsfarartækjum ef ónæði væri að þeim. …

Það er alveg ljóst að Boris Johnson, borgarstjóri Lundúna, mun kalla yfir sig reiði þeirra, sem vilja fá að drekka í friði í lestum og strætisvögnum, svo og frjálshyggjumanna í eigin flokki, sem telja, að fólk eigi að fá að ráða sér sjálft. En hann mun líka uppskera þakklæti margra fyrir að taka til hendi.

– Leiðari Morgunblaðsins „Boris bannar“ 9. maí 2008.

M argt fólk leyfir ekki gestum að reykja á heimilum sínum. Við því er lítið að segja. Menn eru einfaldlega að nýta sjálfsagðan eignarrétt sinn. Það er leitun að frjálshyggjumanni sem teldi það bera merki um forræðishyggju að nýta þennan rétt. Eigendur farartækja, bíla, strætisvagna, flugvéla, lesta, hafa auðvitað sama umráðarétt yfir eignum sínum. Þeir geta vísað mönnum út sem ganga ekki um eins og fyrir þá er lagt. Drykkja áfengis og drykkjulæti er einfaldlega hegðun sem fáir eigendur fólksflutningafyrirtækja kæra sig um í farartækjum sínum.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins virðist átta sig á því að frjálshyggjumenn eru hlynntir eignarrétti. Höfundurinn skilur, að því er hann segir, að frjálshyggjumenn sjá ekkert að því að eigendur farartækja vísi farþegum sem haga sér eins og skepnur frá borði. Engu að síður telur hann að frjálshyggjumenn séu gagnrýnir á að slíkur eignarréttur sé nýttur því „fólk eigi að fá að ráða sér sjálft.“ Þetta er fremur ruglingslegt.

Þótt frjálshyggjumenn vilji ekki banna drykkju eða reykingar jafngildir það ekki því að menn hafi ótakmarkað leyfi til að reykja og staupa sig hvar sem er. Menn geta ekki vaðið inn að rúmstokki næsta manns með viský og vindil og vísað til þess að engin lög banni drykkju og reykingar. Þeir sem haga sér þannig eru ekki að brjóta af sér með drykkju og reykingum heldur með því að ganga á eignarrétt nágranna sinna.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins virðist telja að þar sem frjálshyggjumenn vilji ekki banna áfengisdrykkju þá vilji þeir þar með gefa drykkjumönnum ótakmarkað leyfi til að angra annað fólk. Þetta er einhver misskilningur. Fyrir 133 árum reyndi bandaríski ævintýramaðurinn Lysander Spooner að leiðrétta þennan rugling í riti sínu Vices Are Not Crimes – A Vindication of Moral Liberty. Andríki gaf þetta rit út á íslensku undir nafninu Löstur er ekki glæpur á síðasta ári.

Það er einnig enn og aftur sagt að drykkjustaðir séu oft fullir af hávaðasömum og fyrirgangssömum mönnum sem spilla friði í íbúðahverfum og raska svefni og hvíld nágranna.

Þetta getur stundum, en ekki mjög oft, verið satt. En þrátt fyrir það, hvenær sem það er satt þá er hægt að koma í veg fyrir truflunina með því að refsa eigandanum eða viðskiptavinum hans og, ef með þarf, með því að loka staðnum.

Samkoma hávaðasamra drykkjumanna er ekki á neinn hátt meiri skerðing á hagsmunum annarra en aðrar hávaðasamar samkomur. Fjörugur eða gáskafullur drykkjumaður raskar ró nágranna sinna hvorki meira né minna en ofsatrúarmaðurinn sem hrópar í sífellu. Samkoma hávaðasamra drykkjumanna er hvorki meiri né minni plága en samkoma hrópandi ofstækismanna í trúmálum. Báðir skerða hagsmuni annarra þegar þeir spilla friði og ræna fólk svefni. Jafnvel hundur sem geltir oft og truflar með því svefn og ró í hverfinu skerðir hagsmuni annarra.

Frjálshyggjumenn vilja ekki banna trúarbrögð en þar með hafa ofsatrúarmenn ekkert leyfi til að æpa trúarjátningar inn um svefnherbergisglugga annars fólks. Frjálshyggjumenn vilja vissulega gefa mönnum mikið persónulegt frelsi en þeir eru ekki síður fylgjandi eignarrétti. Dæmis Spooners um ofsatrúarmanninn er lýsandi um þetta. Annað gott dæmi um hvernig eignarréttur setur persónulegu frelsi takmörk er svonefnt veggjakrot. Jú, frjálshyggjumenn eru fylgjandi prentfrelsi en þar með hafa menn engan rétt til að prenta skoðanir sínar og tákn á húsveggi annars fólks.

Yfirskriftin á nefndum leiðara Morgunblaðsins var „Boris bannar“.  Blaðið gat ekki leynt ánægju sinni með að hafa fundið „frjálshyggjumann“ sem léti það verða sitt fyrsta verk sem borgarstjóri í stórborg að „banna“ eitthvað. Það flækir málið sjálfsagt aðeins fyrir leiðarahöfundi að þarna er maður með opinbert vald að tilkynna sérstaklega um skilyrði sem sett eru fyrir notkun opinberrar þjónustu: Áfengi og ofurölvi menn fá ekki lengur að fljóta með í strætisvögnunum.

Er sanngjarnt að kalla það sérstakt „bann“ þegar yfirmaður strætisvagnafyrirtækis tilkynnir farþegum að vagnarnir séu hugsaðir sem farartæki en ekki knæpur á hjólum?