S tefán Pálsson fyrrverandi herstöðvaandstæðingur og núverandi hernaðarandstæðingur er mikill áhugamaður um skoskan iðnaðarspíra sem jafnan er nefndur viský. Þetta fer ekki framhjá þeim sem fylgjast með hinum prýðilega vef hans. Stefán segir gjarnan frá innkaupaferðum sínum í áfengiseinokun íslenska ríkisins og er ekki alltaf jafn ánægður. Þannig vildi til 8. apríl síðastliðinn.
Í dag lærði ég um 60 daga regluna. Fór í Heiðrúnu að kaupa bjór. Stoppaði í leiðinni í sérvörudeildinni og spurði starfsmann út í Ardbeg-viskýið sem kom í hillurnar í fáeinar vikur og hvarf. Starfsmaðurinn mundi eftir Ardbeg og að það væri gott viský. Hann lagðist strax í hringingar. Í ljós kom að Ardbeg hafði rokselst um leið og það kom í verslanir. Raunar hafði lagerinn klárast á fáeinum dögum. Þegar það gerist tekur gildi sérstök regla um vörur í prufusölu. Birginn hefur þá 60 daga til að tryggja nýja sendingu. Takist það ekki, er varan tekin af söluskrá. Í tilfelli Ardbeg var það sem sagt ÖLGERÐIN EGILL SKALLAGRÍMSSON sem hafði umboðið en tókst ekki að fylla á hillurnar á tveimur mánuðum. Skömm þeirra verður lengi uppi! Ölgerðin á að heita umboðsaðili fyrir Ardbeg er virðist ekki starfi sínu vaxin. Það harma allir góðir menn. |
Já seisei, tókst umboðsmanninum ekki að hlaupa nógu hratt til að fullnægja hinni eðlilegu og sjálfsögðu 60 daga reglu ríkisins? Skömm hans verður lengi uppi og allir góðir menn harma getuleysi hans. Hann er ekki starfi sínu vaxinn.
Það má hins vegar ekki ekki halla á ríkiseinokunina. Ekki einu orði. Hún er sjálfsögð og eðlileg. Hluti af lífinu.
Í Sovétríkjunum voru líka flestar hillur verslana tómar. Það var örugglega allt helv. heildsölunum að kenna.