M örgum kom á óvart að Kjartan Magnússon borgarfulltrúi og stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur gaf ekki afdráttarlaus svör um fram tíð REI í Kastljósi Ríkissjónvarpsins á miðvikudaginn.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins tóku sem frægt er orðið skynsamlega afstöðu á haustmánuðum þegar þeir stöðvuðu allsherjar útrás orkuveitunnar á kostnað skattgreiðenda undir nafni REI. Sú afstaða kostaði þá slit þáverandi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það var tvímælalaust þess virði og verður þeim að óbreyttu til álitsauka þegar frá líður.
Nú þegar sjálfstæðismenn eru aftur komnir til valda í borginni og hafa mikil áhrif á starfsemi orkuveitunnar er mikilvægt að það fari ekki á milli mála að þeir fylgi þessari sannfæringu sinni frá því í haust. Sú sannfæring var ekki aðeins skynsamleg heldur eðlileg fyrir fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Svona ef menn hafa þær hugsjónir sem Sjálfstæðisflokkurinn er reistur á til viðmiðunar.
En skýringin á því að Kjartan var ekki jafn skýr í svörum – og hin skynsamlega afstaða borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í haust hefði átt að vera ávísun á – birtist í Kastljósinu daginn eftir þegar Ólafur F. Magnússon borgarstjóri sat fyrir svörum. Ólafur hafði að því er virtist nokkuð aðrar hugmyndir en sjálfstæðismenn um REI.
Samkvæmt fréttum af stjórnarfundi orkuveitunnar í gær virðist hins vegar sem samkomulag hafi náðst milli Ólafs og sjálfstæðismanna um að hnýta ýmsa lausa enda varðandi REI og eðlilegt framhald á þeirri vinnu er að selja fyrirtækið í bútum eða í einu lagi þannig að það sé skýrt að skattgreiðendur í Reykjavík taki ekki frekari þátt í fjárfestingarævintýrum í orkumálum um víða veröld.
Fulltrúar Samfylkingar og VG í stjórn orkuveitunnar eru eðlilega mjög óánægðir með þessa þróun og vilja alveg endilega halda áfram að spila með fjármuni Reykvíkinga í fjarlægum löndum.