Föstudagur 18. apríl 2008

109. tbl. 12. árg.

E igi var kyn þó ásum brygði er óðu þeir eld og eimyrju upp í klyftir. Þannig hófst dæmigerð stafsetningaræfing sem Jón S. Guðmundsson cand. mag. setti til höfuðs nemendum sínum í Menntaskólanum. Þær fengu þeir í hverri viku allan veturinn og undir vor höfðu ýmsir þeirra náð upp í núllið. Það var dreginn frá hálfur fyrir hverja villu.

Þeir eru í senn margir og fáir sem fengu Jón S. Guðmundsson sem kennara sinn. Margir, því hann kenndi í Menntaskólanum í hálfa öld og hætti ekki fyrr en hálfáttræður. Fáir, því svo miklu fleiri hefðu þurft hans með. En nemendur Jóns S. Guðmundssonar frá 1943 til 1993 mega í dag minnast þess kennara sem aldrei verður annar slíkur. Hversu margir munu nú ekki fara á mis við kennara sem miskunnarlaust lækkar þann ritgerðarhöfund sem notar lið og keppni í fleirtölu? Mörg lið kepptu í keppnunum, einmitt það. Sú keppni fór ekki fram í ritgerðum sem Jón skilaði lesnum, þó vafalaust hafi orðið mikil bæting í áröngrum í keppnum annars staðar. Eða verðið, sem sumir vilja hafa í fleirtölu. Í tímum hjá Jóni var eitt verð og tvennt verð, ekki mörg verð. „Verðin eru ekki að hækka“ þó mörg verðhækkun hafi orðið. Svo eru það ódýru fargjöldin, hvað ætli þau kosti? Góðan dag, ég ætla að fá eitt fargjald, þökk fyrir. Er opnunartími frá níu til fimm? Mikið eru mennirnir lengi að opna. Verslunin opnar á morgun. Hvað opnar hún? Já og Jón bjó ekki í Drápuhlíð. Hann átti heima þar. Hann kenndi en var ekki að kenna. Nei ártíð er ekki fæðingarafmæli. Tuttugufaldur hvað? Ekki mikill stígandi heldur mikil. Já er teiti hjá ykkur í kvöld? Núnú, góð vonandi. Hefur þú fengið leið á þessu? Hvert liggur hún?

Jón S. Guðmundsson var einstaklega skemmtilegur kennari og hlýr maður þaraðauki. Hann var óvenjulega fróður og naut þess að fræða en að sama skapi frábitinn sýningarhaldi á sjálfum sér og fjarri honum að miklast af þekkingu sinni. En það mátti finna sér auðloknari áhugamál en að reka Jón á gat. Um miðja síðustu öld mun einn nemandi hans þó hafa hrósað sætum sigri er hann komst yfir áratugagamlan og uppseldan pésa eftir Nordal, stal úr honum kafla og skilaði inn sem ritgerð. Kauði fékk ritgerð sína til baka með einkunninni níu komma fimm sem var fáheyrt og varð almenn sigurgleði í bekknum þar til einhver þurfti að reka augun í að aftast hafði kennarinn, í stað hefðbundinna athugasemda, skrifað í viðurkenningarskyni: „Afbragðs ritgerð hjá yður, prófessor Sigurður“. Hefur þá allt þrennt verið Jóni líkt: að þekkja þegar nær óþekktan textann, að gera ekki rekistefnu úr málinu – og að gefa jafnvel ekki Sigurði Nordal tíu.

Það má ætla að það hafi verið öðrum eins kennara og Jóni S. Guðmundssyni nokkur raun að horfa upp á hverja kynslóðina af annarri kunna minna í móðurmáli sínu en sú á undan hafði þó gert. En hann lét það þá hvorki bitna á nemendunum né draga úr kennslugleði sinni svo fundið yrði. Ár eftir ár bauðst nemendum Menntaskólans lifandi kennsla þess manns sem vegna fass, fróðleiks og máltilfinningar var sterklega grunaður um að hafa staðið fast með Sveinbirni Egilssyni gegn pereatinu, lesið prófarkir Heimskringlu og stutt Jónas aftur upp tröppurnar. Þegar hagstofan greindi svo frá því að þrjú algengust karlmannsnöfn á Íslandi væru í þessari röð Jón, Sigurður og Guðmundur, þá trúðu því fáir jafn skilyrðislaust og nemendur Jóns S. Guðmundssonar, íslenskasta manns landsins. Nú heita öll börn, drengir sem stúlkur, Aron Líf. Sjálfur talaði hann íslensku eins og búast hefði mátt við af höfundi hennar og sjálfsagt hefði verið fyrirhafnarlítið að sannfæra suma nemendur hans um að hann væri það.

Að sitja í tímum hjá Jóni S. Guðmundssyni var næst sem hægt að var að komast því að vera í klassískum skóla á Íslandi og verður ekki nær farið úr þessu nema Sigurbjörn Einarsson fari aftur að kenna við guðfræðideildina sem hann er raunar vís til. Tíðar athugasemdir um málfar í fjölmiðlum; vandlega lesnar ritgerðir, þar sem hverri leiðréttingu og ekki voru fáar fylgdi útskýring sem oft mátti kalla greinargerð; svör við hverju sem nemanda gat dottið í hug að spyrja og fæst gáfulegt; stafsetningaræfingar sem voru þannig að sumir muna enn úr þeim setningar fjörutíu árum síðar – eða bara kennarinn í sæti sínu og fer bókarlaust með erfiljóð Bjarna Thorarensen, kafla úr Fóstbræðrasögu, Sólarljóð og auðvitað prologum Heimskringlu. Já einn var sá höfundur sem Jón S. Guðmundsson hélt meira upp á en aðra. Tíma eftir tíma máttu nemendur búast við að vera spurðir um smáatriði í verkum hans og þegar þeim sást yfir nokkurt kryddið í lúmskri sögu eða launfyndni, brosti kennarinn brosi þess sem veit sig búa yfir leyndarmáli sem einn daginn verður opinbert og sagði með auðheyrðri ást á sínum eftirlætishöfundi: „Varið ykkur á honum Snorra Sturlusyni“. Staðráðnir í að gleyma ekki þeirri viðvörun – en ekki aðvörun því það er danska – munu margir nemendur Jóns S. Guðmundssonar nú þakka fyrir sig og vona sínum sæla kennara hafi verið feitt um hjartarætur, því það átti hann skilið.