K ína er á nokkurs vafa eitt af þeim ríkjum í dag sem eiga hvað ljótasta sögu þegar kemur að mannréttindum. Hins vegar verður að teljast verulegt gleðiefni að Kína hafi þrátt fyrir allt tekið ýmis skref í átt til aukinna mannréttinda á síðustu árum, ólíkt ríkjum svo sem Kúbu og Norður-Kóreu. Það sést líka meðal annars á því að fólk er skyndilega farið að leggja sömu mælikvarða á Kína og önnur siðuð ríki, ólíkt til að mynda Kúbu þar sem meint læsi landsmanna á að koma í stað lýðréttinda.
„Á sama tíma og þessi umræða á sér stað er viðskiptaráðherra á leið til Kína. Hann fullvissar þó fréttamenn að hann ætli ræða við kínversk stjórnvöld um mannréttindi sem verður að teljast jákvætt, en það skýtur þó skökku við að um leið og hann ætlar að mótmæla íhlutun Kínverja í Tíbet ætlar hann að krefjast þess að Kínverjar taki upp vestræna vinnuverndarlöggjöf.“ |
En þótt ástandið hafi batnað til mikilla muna í Kína er það auðvitað ekki viðunandi og íslenskum mannréttindasinnum bæði ljúft og skylt að standa með skoðanabræðrum sínum í Kína. Hins vegar má velta fyrir sér með hvaða hætti er rétt að gera það og hvaða aðferðir eru líklegar til að skila árangri.
Það er alltaf vandasamt fyrir utanaðkomandi aðila að gagnrýna lönd. Það er eins með að Kínverja og Íslendinga, þjóðernið er ekki valið en menn taka því óstinnt upp þegar þessi eiginleiki þeirra er gagnrýndur. Hér á landi höfum við séð það þegar Íslendingar hafa verið gagnrýnir af erlendum aðilum, hvort heldur það er fyrir hvalveiðar eða efnahagsstjórn. Annað nærtækt dæmi eru vinir okkar Færeyingar en þeir hafa brotið á mannréttindum gagnvart samkynhneigðu fólki í löggjöf sinni og brugðist illa við gagnrýnisröddum yfir því.
Spurningin er hvernig er réttast að koma gagnrýni á framfæri? Eigum við að slíta öllum samskiptum við Færeyinga, beita þá viðskiptabanni eða neita að stunda þar íþróttakappleiki? Nei varla, en það er sjálfsagt að styðja við réttindabaráttu samkynhneigðra þar í landi.
En hvað þá með Kína? Kína er nú komið í deiglu athygli heimsins með því að vera gestgjafar Ólympíuleikanna. Með því að kalla yfir sig athygli með þeim hætti, draga þeir vitanlega líka athygli að skuggahliðunum þar með talið ástandi mannréttinda í landinu. Það er því bæði rétt og gott að margir hafi orðið til að mótmæla ástandi mannréttinda þar í landi að undanförnu einkum í ljósi atburða í Tíbet að undandförnu. Hins vegar verður að segjast eins og er að þessi mótmæli hafa gjörsamlega farið úr böndunum og fremur borið merki um skemmdarfýsn og athyglissýki mótmælenda. Eða dettur nokkrum manni í hug að það að slökkva Ólympíueldinn snúi mörgum almennum Kínverjum á sveif með Tíbetum eða mannréttindum almennt?
Það er ekki vænlegt til árangurs að vera sífellt að velta almennum borgurum í Kína upp úr framferði stjórnvalda þar í landi. Skammt er síðan að Björk hélt tónleika í Kína og fór að angra gesti með yfirlýsingum um Tíbet. Datt henni virkilega í hug að fólk hefði greitt aðgangseyrinn til að njóta stjórnmálaskýringa hennar?
Það verður líka að hafa hugfast að flestir Kínverjar eru fórnarlamb stjórnvalda sinna fremur en kvalarar annarra þar með talið Tíbeta. Þeir geta hins vegar vel verið stoltir af sögu sinni og lagt metnað sinn í að gera Ólympíuleikana sem besta úr garði. Það er móðgun við þetta fólk að kæfa Ólympíuleikana í umfjöllun um mannréttindi, rétt eins og Færeyingar myndu fljótt gefast upp á samskiptum við okkur ef gerðum ekki annað en að ræða stöðu samkynhneigðra þar í land.
Það hefur verið rætt um að það að íslenskir ráðamenn ættu að sniðganga Ólympíuleikana. Fyrir nokkrum misserum fór forseti lýðveldisins með fulla flugvél kaupsýslumanna til að Kína til að liðka fyrir því að þeir gætu skrifað þar undir samninga. En íþróttafólk sem hefur æft árum saman fyrir atburðinn á hins vegar að sitja heima í von um að ástandið í Tíbet batni fyrir vikið.
Á sama tíma og þessi umræða á sér stað er viðskiptaráðherra á leið til Kína. Hann fullvissar þó fréttamenn að hann ætli ræða við kínversk stjórnvöld um mannréttindi sem verður að teljast jákvætt, en það skýtur þó skökku við að um leið og hann ætlar að mótmæla íhlutun Kínverja í Tíbet ætlar hann að krefjast þess að Kínverjar taki upp vestræna vinnuverndarlöggjöf.