Óvænt og upplífgandi! Hinar snörpu varnir Blocks sannfæra mann oft. En stundum herðist maður í gagnstæðri skoðun. Hvort sem er kemst lesandinn ekki hjá því að taka þeirri áskorun sem lestur bókarinnar er. Hún fær mann til að hugsa lengra, hleypir kappi í kinn en fær mann einnig á stundum til að reita hár sitt og skegg. |
– Robert Nozick, heimspekingur og prófessor í Harvard, um Defending the Undefendable. |
Á rið 1976 kom út ansi skemmtileg bók undir nafninu Defending the Undefendable eftir bandaríska hagfræðinginn Walter Block. Í bókinni tekur Block til varna fyrir ýmsar umdeildustu starfstéttir þjóðfélagsins.
Vændiskonan, melludólgurinn, karlrembusvínið, fíkniefnasalinn, slúðurberinn, auglýsandinn, spákaupmaðurinn, milliliðurinn og óskráði leigubílstjórinn ásamt tugum annarra með vafasamt orðspor eru varin af mikilli fimi.
F.A. Hayek sagði í bréfi til höfundar að bókin minnti sig á þær hispurslausu aðferðir sem Ludwig von Mises notaði til að sannfæra sig um ágæti hins frjálsa markaðar.
Margir sem Block ver í bókinni eiga undi högg að sækja fyrir svonefnda glæpi án fórnarlambs. Þetta fólk stundar einhverja iðju sem einhverjir allt aðrir en viðskiptavinir þess hafa skömm á. Vændiskonan er besta dæmið um þetta. Viðskiptavinir hennar eru ánægðir og hún kýs þetta starf fremur en önnur eða ekkert. Ekkert fórnarlamb er til staðar á meðan engri nauðung eða ofbeldi er beitt. Engu að síður vilja margir banna vændi.
Meðal annarra sem Block ver í bókinni er fjárkúgarinn sem hann telur gera talsvert gagn. Um verknaðinn sjálfan segir Block: „Hvað er fjárkúgun eiginlega? Jú hún til tilboð um viðskipti. Yfirleitt er hún tilboð um að skipta á þögn fyrir fé. Ef gengið er að tilboðinu þegir fjárkúgarinn og hinn kúgaði greiðir umsamið gjald. Ef tilboðinu er hafnað getur fjárkúgarinn nýtt sér tjáningarfrelsi sitt og gert leyndarmál opinber.“
Block segir fjárkúgarann að minnsta kosti vera skárri mann en slúðurberann – sem hann ver þó einnig í bókinni – því fjárkúgarinn gefi mönnum kost á að kaupa þögn sína sem slúðurberinn geri ekki.
Block telur einnig að fjárkúgarinn vinni jafnframt gegn raunverulegum glæpum því hann auki áhættuna við þá. Möguleg fjárkúgun sé hluti af því sem aftrar mönnum frá því að fremja ýmsa glæpi. Sömuleiðis þurfi þeir sem stunda framhjáhald og aðra iðju sem sé ekki ólögleg en siðlaus að margra mati að hugsa sinn gang vegna hugsanlegrar fjárkúgunar.
Nú hefur Mises Institute gefið bókina út að nýju og fæst hún í netverslun stofnunarinnar á um þúsund kall.