E gill Helgason má eiga það að í sínum ágæta bókaþætti í síðustu viku fjallaði hann myndarlega um þá athyglisverðu bók, Íslamista og naívista, sem Vefþjóðviljinn hefur áður sagt frá. Uppgangur íslamismans í Evrópu er í ekkert fagnaðarefni og mun meiri en margir gera sér grein fyrir. Íslamismar og naívistar kom út í íslenskri þýðingu fyrir nokkrum mánuðum og er afar mikilvægt lesefni fyrir Íslendinga, að því gefnu að þeir séu ekki endanlega staðráðnir í að gera sjálfir öll sömu mistök og nágrannar þeirra hafa gert.
Það er Agli Helgasyni til hróss að hafa vakið svo veglega athygli á Íslamistum og naívistum. Þá á hann ekki síður hrós fyrir að hafa með snyrtilegum hætti gefið áhorfendum ógleymanlega mynd af efni hennar, með myndum af fánabrennandi íslamistum og skemmtilegu viðtali við Eirík Bergmann Einarsson.
Íslamistar og naívistar varð metsölubók í Danmörku og vakti mikla athygli. Höfundar hennar eru þjóðkunn í sínu heimalandi; hún er nú ráðherra og hafði áður verið það fyrir hönd jafnaðarmanna, hann var á sama tíma hægri hönd Pouls Nyrups Rasmussens, forsætisráðherra og leiðtoga jafnaðarmanna. Á Íslandi hefur bókin ekki notið sama áhuga fjölmiðlamanna. Þannig mun Morgunblaðið ekki enn hafa birt um hana ritdóm – sem kannski er eins gott. Blaðið lét Sverri Jakobsson skrifa um ævisögu Maós; Jón Ólafsson um Kommúnismann og Andra Snæ Magnason um umhverfisbók Steingríms J. Sigfússonar. Sennilega hefur Morgunblaðið ekki enn birt ritdóm um Íslamista og naívista af þeirri einföldu ástæðu að Salman Tamimi er enn að skrifa hann.
Íslamistar og naívistar fást í Bóksölu Andríkis og full ástæða til að hvetja fólk til að verða sér og öðrum út um eintak af henni.
A fríkuríkið Zimbabve, sem áður hét Ródesía, er á heljarþröm. Eftir áratuga stjórn Roberts Mugabes er þar flest í rúst sem í rúst getur fallið. Verðbólga er mæld í tugþúsundum prósentna og eftir að einkaeignarréttur bænda varð að engu getur þetta gamla „forðabúr Afríku“ ekki lengur brauðfætt þegna sína. Forsetakosningar fóru fram í landinu á dögunum en úrslit hafa ekki enn verið gefin upp, þó stuðningsmenn stjórnarandstöðuleiðtogans Tsvangirais telja sig hafa sigrað. En hver veit hvort það yrði nokkuð betra. Ríkissjónvarpið íslenska hafði vildi síðastliðinn þriðjudag fræða áhorfendur sína um það hvernig maður það væri og fann Sólveigu Ólafsdóttur hjá Rauðakrossinum. Og um leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sem berst við einræðisherrann Mugabe, manninn sem skilur við landið í rjúkandi rúst og verðbólgu í kringum 100 þúsund prósent, hafði hún þetta að segja og ekki annað:
Hann skortir leiðtogahæfileika og margir segja að hann skorti hreinlega greind til að takast á við jafn skarpgreindan mann og Mugabe óneitanlega er.