Helgarsprokið 6. apríl 2008

97. tbl. 12. árg.
Mr. Charlton Heston
315 South Beverly Drive
Beverly Hills, California 90212

Dear Mr. Heston.

It has come to the attention of the Screen Actors Guild that you appeared in a television comercial for National Review magazine. However, our records do not indicate that employment in this TV commercial was covered by a Screen Actors Guild bargaining agreement. Please be advised that Rule 1 of the Screen Actors Guild Constitution and By-Laws states:

“No member shall work as an actor or make an agreement to work as an actor for any producer who has not executed a basic minimum agreement with the Guild which is in full force and effect.”

Based on the above information, it appears that you are in violation of Rule 1. The SAG Board of Directors has asked me to investigate this matter before proceeding with possible disciplinary action pursuant to the Constitution and By-Laws. Kindly complete and return the enclosed questionnaire within the next ten (10) days in order to facilitate this investigation.

Thank you for your cooperation.

Sincerely.

Clinta M. Dayton
Assistant National Executive Secretary
Screen Actors Guild.

– Félag bandarískra kvikmyndaleikara skrifar Charlton Heston bréf, í júní 1984.

E itt skemmtilegasta tímarit Bandaríkjanna er National Review, sem íhaldsmaðurinn William F. Buckley yngri stofnaði árið 1955 og ritstýrði þar til hann lést á dögunum. Meðal ánægðra lesenda þess var kvikmyndaleikarinn Charlton Heston sem lést í gær, en árið 1984 endurgalt hann tímaritinu með því að leika í sjónvarpsauglýsingum fyrir það. Og fékk þegar í stað ofanritað bréf frá hinu alsjáandi fagfélagi bandarískra kvikmyndaleikara, sem aldrei sefur á verðinum.

Charlton Heston gat oftast svarað fyrir sig í þeim kvikmyndum sem hann lék í, og sama máli gegndi um raunveruleikann. Hann skrifaði leikarafélaginu til baka og játaði þar á sig að hafa líklega verið í blóra við reglu númer eitt, meira og minna þau þrjátíu og fjögur ár sem hann þá hafði verið í félaginu. Hann hefði ekki tekið túskilding fyrir auglýsinguna sem hann gerði fyrir National Review og þannig hefði hann raunar komið fram í auglýsingum áratugum saman. Því miður, sagði Heston, væri bókhald sitt um slíkar launalausar auglýsingar heldur ófullkomið, en hann hefði til dæmis leikið frítt í auglýsingum fyrir Rauða krossinn, Krabbameinsfélagið, Blindrafélagið, Samtök geðveikra, Hjálpræðisherinn, skátahreyfinguna, nokkra háskóla, nokkra frambjóðendur demókrata, umhverfisverndarsamtök og ýmsa fleiri sem hann tiltók. Þótti Charlton Heston nokkuð merkilegt að leikarafélagið hefði aldrei áður gert athugasemd, ef það væri nú virkilega svo að sér væri þetta ekki heimilt.

Það sem Charlton Heston áttaði sig hins vegar ekki á, var að hann hafði ekki áður leikið í auglýsingum fyrir National Review. Þá vöknuðu nefnilega hinir heilögu fagmenn. Var ekki bara búið að brjóta reglu númer eitt? Ja, gott ef ekki. Þetta kallaði á faglega rannsókn. Hinum seka var því strax skrifað bréf, bent á að hann væri sennilega búinn að brjóta ósnertanlega reglu og svo var hann krafinn svara við ýtarlegum spurningum, svo rannsaka mætti málið. Að vísu hafði hann milljón sinnum áður leikið frítt í auglýsingum, en það þýðir ekki að bæta eitt böl með því að benda á eitthvað annað. Hér þurfti faglega rannsókn, en auðvitað án þess að nokkuð væri ákveðið fyrirfram með niðurstöðuna, því þannig vinna fagmenn ekki. Kæri herra Heston…

Á Íslandi hafa fagmenn ekki tíma fyrir smáatriði eins og kauplausan leik í auglýsingum. Þar hafa þeir síðustu daga verið uppteknir af því hvort Hannes Hólmsteinn Gissurarson verði ekki örugglega rekinn frá háskólanum eftir að Hæstiréttur dæmdi hann til að bæta Auði Laxness það fjártjón sem hann augljóslega olli henni með því að vera ekki með nægar tilvísanir í fyrsta bindi sínu af ævisögu Halldórs Laxness. – Ef hann hefði haft fleiri tilvísanir hefði ekkert fjártjón orðið, eins og allir skilja. – Að vísu er Hannes ekki fyrsti prófessorinn til þess að vera tekinn til bæna í Hæstarétti, og hingað til hefur enginn áhugi verið á að slíkir dómar hafi eftirmál, en það þýðir ekki að bæta eitt böl með því að benda á eitthvað annað. Undanfarna viku hafa fréttamenn því hringt þrisvar á dag í háskólarektor til að þrýsta á hann að reka nú Hannes.

Þannig var háskólaprófessor fremur nýlega dæmdur í Hæstarétti fyrir meiðyrði sem hann hafði látið falla og það í dómnefndaráliti vegna veitingar starfs við Háskóla Íslands. Ekki datt nokkrum manni í hug þá að kalla eftir sérstökum agaviðurlögum á hendur prófessornum eða hrópa að skólinn gæti ekki komist í fremstu röð í heiminum með slíkan dæmdan mann á sinni launaskrá. Ekki lágu fréttamenn þá í háskólarektor til að kanna hvort eitthvað væri nýtt að frétta af málinu frá því þeir slógu síðast á þráðinn, tveimur tímum fyrr.

Um svipað leyti var Háskóli Íslands sjálfur, brjóstvörn fræðimanna, dæmdur til að greiða einstaklingi milljónir króna í skaðabætur fyrir að hafa komið einum starfsmanna sinna úr starfi með ólögmætum hætti og valdið honum „ólögmætri meingerð á æru sinni og persónu.“ Ekki gengu fréttamenn þá af göflunum. Ekki var þá hringt daglega að kanna um afsögn háskólarektors – enda var hann mikill fagmaður.

Örfáum árum fyrr var Háskóli Íslands dæmdur til að greiða öðrum starfsmanni sínum hálfa þriðju milljón króna í bætur eftir að honum hafði verið sagt upp starfi með ólögmætum hætti, af þáverandi forseta heimspekideildar Háskólans. Ekki lágu fréttamenn þá í rektor eða forstöðumanninum til að kanna hvort ekki yrði örugglega gripið til harðra agaviðurlaga vegna þessa. Hins vegar hefur nú nýlega náðst í þennan fyrrverandi deildarforseta og sagði hann opinberlega aðspurður að hann teldi rétt að áminna Hannes Hólmstein Gissuarson.

Og til gamans má rifja upp, að sú bók sem Hannes hefur nú verið dæmdur fyrir að skrifa eins og hann gerði, hana skrifaði hann ekki sem starfsmaður Háskólans heldur sem einstaklingur utan hans. En það breytir engu. Hér er auðvitað grafalvarlegt mál á ferð sem verður að taka á af fyllstu hörku. Það skilja allir menn, og ekkert annað en yfirklór að benda á að hingað til hafi hæstaréttardómar vegna afglapa við stjórnun Háskólans ekki þótt kalla á nein sérstök viðbrögð. Viðbrögðin nú, snúast auðvitað alls ekki um persónu Hannesar Hólmsteins heldur eru bara hrein og klár fagmennska. Og fagmenn fara ekki í manngreinarálit. Fréttamennirnir, sem nú spurðu daglega um agaviðurlög Hannesar, hyggjast nú allir sem einn skoða fyrri dóma yfir Háskólanum og höfðingjum hans og grafast fyrir um agaviðurlög sem þá var beitt.

Kæri herra Heston.