Laugardagur 5. apríl 2008

96. tbl. 12. árg.

A l Gore fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og þingmaður fyrir Tennessee er væntanlegur til Íslands í næstu viku og mun flytja erindi í Háskólabíói í boði Glitnis. Það mun ekki í fyrsta sinn sem íslensk fjármálastofnun biður hann að ávarpa starfsmenn og viðskiptavini. Ef að líkum lætur mun Gore hafa yfir sama glærufyrirlestur um gróðurhúsaáhrifin og hann hefur flutt vítt og breitt um heiminn undanfarin ár.

Á grunni þessarar glærumessu var kvikmyndin An Inconvenient Truth – A Global Warning búin til í Hollywood fyrir tveimur árum og skömmu síðar kom út bók um sama efni eftir Gore. Kvikmyndin hlaut tvenn Óskarsverðlaun, annars vegar fyrir tónlist, sem hún átti fyllilega skilið, og hins vegar sem besta heimildarmyndin. Myndin var sýnd í Háskólabíói haustið 2006 við litla aðsókn en hún er engu að síður ein best sótta heimildarmynd sögunnar. Á frumsýningu á Íslandi voru sárafáir gestir og af þeim mættu álíka margir á reiðhjóli og á landsfund vinstri grænna.

Í myndinni gerir Gore sér mikinn mat úr því að um hlýnun andrúmsloftsins og ástæðurnar fyrir henni sé vísindalegur kórsöngur (scientific consensus). Í viðtali við ABC sjónvarpsstöðina eftir að myndin var komin á hvíta tjaldið sagði hann einnig að „umræðunni í vísindasamfélaginu væri lokið“.Vefþjóðviljinn hefur fjallað um þessar fullyrðingar Gores tvisvar áður og meðal annars með þessum orðum:

[Gore] vitnar til rannsóknar sem Naomi Oreskes gerði í ISI gagnagrunni vísindarita á árunum 1993 til 2003. Niðurstöðurnar birti Oreskes í tímaritinu Science 3. desember 2004 undir fyrirsögninni „The Scientific Consensus on Climate Change“. Þær voru sláandi. Oreskes hélt því fram að í þeim 928 tilvikum sem orðin „climate change“ hefðu komið fyrir í vísindagreinum á þessu tímabili hefðu 75% greinanna stutt það sjónarmið að loftslagsbreytingar ættu sér stað af mannavöldum en 25% verið hlutlausar. Engin grein hefði hins vegar gengið gegn því að maðurinn ætti hlut að máli. Þetta setur Gore fram með þeim hætti í mynd sinni að í 0% greinnanna sé kenningunni andmælt. En eins og menn geta kynnt sér hér þá varð Oreskes að birta leiðréttingu við grein sína í Science því hún hafði ekki notað þau leitarorð sem hún sagðist í upphafi hafa notað. Leitarniðurstaða eftir orðunum „climate change“ gaf í raun yfir 12 þúsund greinar en ekki 928 eins og Oreskes hélt fram. Oreskes sagði í leiðréttingunni í Science tæpum tveimur mánuðum síðar að hún hefði notað leitarorðin „global climate change“ sem gefa miklu færri leitarniðurstöður. Þar með er ekki öll sagan sögð því aðrir hafa farið yfir flokkun Oreskes á greinunum og eru henni hreint ekki sammála  um að meirihluti þeirri styðji kenninguna.

Gore sýnir frægt graf yfir breytingar á styrk koltvísýrings og hita undanfarin 650 þúsund ár. Öllum sem líta á þetta graf má vera ljóst að þessir þættir sveiflast saman, upp og niður. Gore gefur þeim ekki háa einkunn sem efast um að aukinn styrkur koltvísýrings leiði einfaldlega til hærri hita. Þeir eru kjánar í besta falli. Hann er þess fullviss að samhengið sé svo einfalt. Það eru auðvitað mörg einföld lögmál í náttúrunni. Það efast hins vegar enginn um að margir þættir hafa áhrif á hitastig andrúmsloftsins; sólin, skýjafar, eldgos, annar útblástur frá athöfnum mannsins, hafstraumar og samspil ýmissa þessara þátta eins og Kyrrahafsfyrirbæið El Niño er dæmi um.

Um þá menn sem setja einhverja fyrirvara við þetta einfalda samband hefur Gore sagt að það séu enn til menn sem „trúa því að Jörðin sé flöt“. Þetta er ekki alveg nógu gott dæmi hjá Gore því ef viðteknum skoðunum (consensus) væri aldrei hrundið hefðu Copernicus og Galileo þurft að láta í minni pokann og Jörðin væri enn marflöt og miðja heimsins.

Á þessu fræga grafi má sjá að styrkur koltvísýrings í andrúmsloftinu hefur aldrei verið meiri en einmitt nú. Menn eru komnir á ókunnar slóðir í þessum efnum. Mun hitinn einfaldlega elta styrk koltvísýringsins upp á við eða verður þessi aukni koltvísýringur til að forða okkur frá næstu ísöld?

Það er augljóst þegar horft er á myndina að Gore dreymir enn um Hvíta húsið. Hann hrærir stjórnmálaferli sínum og einkalífi saman við boðskapinn um hlýnun jarðar. Hann gerir sér bæði mat úr bílslysi sex ára sonar síns og dauða systur sinnar um aldur fram. Báða atburðina tengir hann mjög sterkt við áhuga sinn og skoðanir í umhverfismálum. Þurfa menn ekki að hafa metnað til frekari frama í stjórnmálum til að láta svona lagað frá sér fara? En svo má hins vegar ekki gleyma því að myndin er Hollywood-drama.

Gore er með ótal dæmi um áhrifin sem hlýnun andrúmsloftsins á þegar að hafa haft. Myndina hefur hann til dæmis á fráleitri tengingu við fellibylinn Katrínu eins og Vefþjóðviljinn hefur áður getið:

Myndina hefur Gore á myndskeiðum frá New Orleans er fellibylurinn Katrín gekk þar yfir. Það er verulega langt seilst að tengja slíka einstaka atburði við gróðurhúsaáhrifin. Vandinn við landgöngu Katrínar var að hún fór yfir borg sem að verulegu leyti er byggð neðan sjávarmáls og í stað þess að stöðuvatnið norðan borgarinnar tæki við vatnselgnum flæddi vatn einnig inn í borgina úr Pontchartrain vatninu. Þessar aðstæður hafa ekkert með gróðurhúsaáhrifin að gera.

Samkvæmt myndinni má rekja nær allar pestir og ógæfu mannkyns undanfarna áratugi til útblásturs mannsins á gróðurhúsalofttegundum. Gore telur fjölgun mannanna líka vera eitt helsta vandamálið. Hvílík ógæfa að hér skuli aldrei hafa verið fleira fólk og aldrei jafnt margt fólk haft það jafn gott. Yfir 90% af orkuþörf þessa fólk er mætt með bruna á jarðefnaeldsneyti, sem gefur frá sér koltvísýring. Það er eiginlega ekki hægt að líta framhjá því að þessi orkuframleiðsla á stóran þátt í því að fjórðungur allra þeirra manna sem gengið hafa um á Jörðinni er á vappi hérna núna. Af þeim tíuþúsund kynslóðum manna sem Jörðin hefur alið eru þær fimm sem nú eru uppi fjórðungur! Dettur einhverjum í hug að mannkynið hafi náð þessum undraverða árangri á síðustu öld án þess að það sæist fótspor eftir manninn?

Varnaðarorð sín gegn þessum mikla vágesti, koltvísýringnum, leggur Gore svo að jöfnu við ádrepur Churchills um uppgang nasismans í Evrópu.

Það er „siðlaust athæfi“ ef maðurinn breytir ekki um lífstíl slengir Gore fram í myndinni. Svo slappar hann af með því að rúnta um fjölskyldubúgarðinn á pallbílnum þar til einkaþota flýgur honum á næsta glærusjóv.