Þegar menn ganga út um dyrnar á Hiltonhótelinu við Nílarfljót segja þeir ekki skilið við hátækniveröld faxtækja og ísvéla, sjónvarps og sýklalyfja. Íbúar Kaíró hafa aðgang að öllu þessu. Það sem menn segja í reynd skilið við er heimur viðskipta með eignarréttindum sem má framfylgja með lögum. |
– Hernando de Soto, Leyndardómur fjármagnsins, bls. 36. |
F yrir tveimur árum gaf RSE út hið stórmerkilega rit Hernando de Soto, Leyndardóm fjármagnsins. De Soto heldur því fram að kenna megi ófullkomnum eignarrétti um þær efnahagslegu ógöngur sem svo mörg lönd hafa lent í þótt þau hafi reynt að tileinka sér frjáls viðskipti. De Soto segir að vegna þessa skorts á skýrum eignarrétti á húsnæði, landi og öðrum verðmætum liggi mikið fjármagn í raun dautt. Menn geta til dæmis ímyndað sér hvernig það væri fyrir mann með viðskiptahugmynd að geta ekki veðsett húsnæði sitt vegna þess að hann gæti ekki sýnt fram á ótvíræða eign sína á því.
De Soto og rannsóknarhópur hans reyndi að leggja mat á hversu mikil verðmæti liggja með þessum hætti dauð í þriðja heiminum og fyrrum kommúnistaríkjum. Það var niðurstaða hans að upphæðin sé nálægt heildarverðmæti allra fyrirtækja sem skráð eru á helstu verðbréfamörkuðum í tuttugu þróuðustu ríkjum heims. Þessi verðmæti eru níutíu og þrisvar sinnum meiri en öll þróunaraðstoð iðnríkjanna við þriðja heiminn undanfarna þrjá áratugi. Þegar þróunaraðstoð er sett í þetta samhengi sjá menn væntanlega að hún er nær einskis virði í samanburði við það ef tækist að styrkja eignarrétt í þriðja heiminum og vekja þar með dauða fjármagnið til lífsins.
Það var öðru fremur þetta framlag de Soto sem leiddi til þess að ráðist var í gerð alþjóðlegu eignarréttarvísitölunnar (International Property Rights Index) sem RSE er aðili að. Vísitalan mælir samband verndar eignarréttar og auðlegðar í 115 ríkjum víðs vegar um heim. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að þjóðarframleiðsla á mann sé allt að því níu sinnum meiri í ríkjum þar sem eignarréttur nýtur ríkrar verndar heldur en þar sem slík vernd er lítil sem engin. Þjóðfélög sem tryggja eignarréttarvernd hafa þar með lagt grunninn að friði, stöðugleika og velmegun, ef marka má niðurstöður rannsóknanna, sem ná til 115 ríkja, sem standa undir um 96% þjóðarframleiðslu í heiminum.
Skýrslan fyrir árið 2008 kom út nýlega og hana má finna í heild sinni á www.rse.is og á www.internationalpropertyrightsindex.org.