E ins og minnst var á í gær fóru spænsku kosningarnar ekki nógu vel. En það eru ekki tóm ótíðindi úr veröldinni því vorhefti tímaritsins Þjóðmála var að koma út og þar kennir margra grasa eins og venjulega. Alls eiga átján ólíkir höfundar efni í ritinu að þessu sinni, auk ritstjórans Jakobs F. Ásgeirssonar. Rithöfundurinn Ágúst Borgþór Sverrisson skrifar þarfa grein um uppgang íslamista á Vesturlöndum og ber meðal annars saman tvær nýlegar íslenskar bækur um það alvarlega málefni; annars vegar bókina Íslamista og naívista og hins vegar Íslam með afslætti og reynast það vera æði ólík rit. Einkavæðing í heilbrigðiskerfinu er á dagskrá Þjóðmála en Benedikt Jóhannesson stjórnarformaður Sjúkratryggingar fjallar um heilbrigða skynsemi og heilbrigðiskerfið og Geir Ágústsson verkfræðingur fjallar um það hvað gert hefur verið í öðrum löndum til að yfirstíga vandamál heilbrigðiskerfisins. Benedikt segir að „skýr verðmyndun, frelsi í rekstri og aukið frelsi í heilbrigðistryggingum [tryggi] það að lífskjör [haldi] áfram að batna hér á landi“ og Geir klykkir út með því, að „[G]agnger endurskoðun hins íslenska heilbrigðiskerfis með það að markmiði að auka hlutdeild einkaaðila í veitingu þjónustu og einstaklinga í greiðslu þjónustu [þurfi ] að hefjast hið fyrsta, áður en Íslendingar [brenni] inni með óhagganlegt kerfi sem enginn vill kannast við að hafa komið á laggirnar.“
Margt fleira bitastætt er í Þjóðmálum. Þó margir telji sig hafa heyrt og lesið meira en þeir vildu um tilraunina til að sameina fyrirtækin REI og Geysi Green Energy, þá er hún afar fróðleg og upplýsandi, úttektin sem Björn Bjarnason gerir á málinu í ljósi nýjustu upplýsinga af því. Í samantekt sinni, sem hann nefnir „Hið misheppnaða snilldarbragð”, rekur Björn skilmerkilega ótrúlega sögu af loftköstulum, innantómum yfirlýsingum og ákaflega óvönduðum vinnubrögðum.
Smærri greinar í heftinu eru fjölmargar að venju. Guðmundur Magnússon sagnfræðingur segir sögur af ákafafólki sem reynt hefur að hleypa upp opinberum fundum og annar sagnfræðingur, Snorri G. Bergsson, segir frá ungu róttæku vinstrimönnunum sem fóru mikinn í Framsóknarflokknum á sjöunda áratugnum, en þeirra þekktastur er í dag Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands. Halldór Jónsson verkfræðingur segir að það sé til að hindra en ekki auka samkeppni sem stórmarkaðakeðja láti starfsmenn sína fylgjast með verðlagi hjá keppinautum og yrði slíkt ekki leyft í öðrum löndum og Óli Björn Kárason fjallar um stöðuna í íslensku viðskiptalífi. Fyrirsögn greinar Óla Björns segir kannski mest um mat hans á stöðunni: Elton John kemur ekki aftur.
Þjóðmál eru jafnan fengur fyrir alla áhugamenn um íslensk þjóðmál og menningarmál. Þar má finna efni sem ekki er á ferð annars staðar, efni sem fræðir og vekur til umhugsunar, hvort sem menn fallast á öll sjónarmið greinarhöfunda hverju sinni eða ekki. Ársáskrift kostar aðeins 3500 krónur og færir mönnum fjögur hefti heim að dyrum og jafnvel inn um þær ef menn hafa komið sér upp bréfalúgu, sem margir munu hafa gert. Áskriftin fæst í Bóksölu Andríkis og þar má einnig kaupa stök hefti tímaritsins. Það er einnig tilvalið að panta áskrift öðrum til gjafa.