B orgarstjórnarmeirihlutinn kynnti í vikunni nýja þriggja ára áætlun um rekstur og framkvæmdir Reykjavíkurborgar. Fréttamenn eru eins og þeir eru, og höfðu lítinn sem engan áhuga á innihaldi áætlunarinnar en mikinn á því að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, hefði ekki sótt kynningarfundinn. En ýmislegt í áætluninni er þó mun brýnna mál, frá sjónarhóli borgarbúa.
Eitt atriði sem sérstök ástæða hefði verið til að nefna, er að gert er ráð fyrir óbreyttu útsvari næstu þrjú árin. Við fyrstu heyrn kynni það að hljóma eins og léttir fyrir borgarbúa, sem eftir 12 ára stjórn R-listans telja líklega margir að útsvör geti aðeins færst upp á við. En í Reykjavík vill svo til, eins og víðar á landinu nú orðið, að útsvarið er í hæstu leyfilegu mörkum. Þegar borgaryfirvöld stefna að óbreyttu útsvari þá eru þau því ekki að stefna að því að draga úr skattahækkunum, heldur halda áfram að taka eins mikið af launum borgaranna og þau mögulega geta.
Nú má auðvitað ekki gleyma því að nýi meirihlutinn er nýkominn til valda og því ekki útilokað að hann sjái að sér í ýmsum málum eftir því sem tímar líða. En Sjálfstæðisflokkurinn er raunar fremur nýlega kominn úr meirihlutasamstarfi þar sem hann hróflaði ekki við útsvarinu úr hámarkinu sem R-listinn hafði komið því í. Ekki hefur heyrst aukatekið orð frá einum einasta borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að útsvarið verði lækkað á næstu misserum og er full ástæða fyrir stuðningsmenn þeirra að brýna borgarfulltrúana hér til breyttra áherslna.
Það mun hafa orðið mikið klapp þegar væntanlegur nýr stjórnarformaður eins viðskiptabankanna lét verða sitt fyrsta verk í gær að hlutast til um að laun stjórnarmanna bankans yrðu lækkuð. Ekki vegna þess að bankann munaði um lækkunina heldur sem táknræna aðgerð og skilaboð um breyttan hugsunarhátt. Borgarfulltrúar í Reykjavík gætu stigið skynsamlegt skref með því að lækka útsvarið niður úr því hámarki sem það er í nú. Jafnvel mjög lítil lækkun yrði skilaboð um að borgin teldi sig ekki lengur hafa ótakmarkaðan ráðstöfunarrétt yfir tekjum borgaranna og að einhver takmörk yrðu að vera á útgjöldum hennar. Ef að borgarfulltrúarnir ganga hins vegar til næstu kosninga með útsvarið enn í R-lista-hámarkinu, þá felast einnig skilaboð í því. Borgarfulltrúarnir mættu hafa í huga að það er margt fleira sem skiptir máli en það hver úr hópnum er oddviti hverju sinni.
Sjálfstæðismenn í Reykjavík gætu ýmislegt lært af félögum sínum í sumum nágrannasveitarfélögunum. Undir forystu Jónmundar Guðmarssonar lækkaði Sjálfstæðisflokkurinn á Seltjarnarnesi útsvarið nú úr 12,35 % í 12,10 %. Útsvarið í Garðabæ er 12,46 % og í Keflavík 12,70 % en í báðum sveitarfélögunum er hreinn meirihluti Sjálfstæðisflokksins.
Í Reykjavík er útsvarið í hæstu leyfðu mörkum, 13,03 %.