Miðvikudagur 20. febrúar 2008

51. tbl. 12. árg.
Samgönguráðuneytið hefur fært BUGL, barna- og unglingageðdeild Landspítala, tvær milljónir króna að gjöf. Fénu er ætlað að renna í sjóð til kaupa á íbúð í nágrenni deildarinnar.

Íbúðin verði nýtt fyrir foreldra barna í dreifbýli sem þurfa að fylgja börnum sínum til innlagnar á BUGL enda mikilvægt að fjölskyldan hafi öruggan samastað utan deildarinnar og geti jafnframt verið nálægt meðferðarumhverfi barnsins eða unglingsins. Kristján Möller samgönguráðherra afhenti framlagið við móttöku á BUGL fimmtudaginn 7. febrúar og voru honum færðar þakkir af stjórnendum deildarinnar, segir í fréttatilkynningu.

Frétt á mbl.is 18. febrúar 2008.

S

Höfðingi. Samgönguráðherra afhendir peninga annarra sem Alþingi hafði ákveðið að veita í annað.

amgönguráðherrann tekur fé sem Alþingi hafði ákveðið að verja til samgöngumála og gefur deild á Landspítalanum. Og ekki nóg með að fjárveitingavaldið hafi verið búið að ákveða að nota peningana í annað heldur voru þessir peningar teknir með valdi af skattgreiðendum.

Þarna stendur ráðherrann með peningana sem fólk út í bæ vann fyrir og Alþingi hafði ákveðið að nota í samgöngur og lætur fjölmiðla mynda sig eins og hann sé persónulega að gefa fé til góðra mála.

Svipað lýðskrum átti sér stað fyrir áramótin þegar tveir ráðherrar tilkynntu að í stað þess að senda jólakort myndu þeir veita fénu til enn þarfari málefna. Ekkert hafði þó legið fyrir um að þeir ætluðu að senda jólakort á kostnað skattgreiðenda en ímyndun þeirra sjálfra. Þeir hefðu allt eins getað sagt að í stað þess að nota seðlabúnt sem bókastoðir í ráðuneytinu hefði verið ákveðið að þeir myndu sýna þá einstæðu góðmennsku að styrkja bágstadda.