Miðvikudagur 13. febrúar 2008

44. tbl. 12. árg.

Þ að er óhætt að segja að sótt sé að Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni borgarfulltrúa úr ýmsum áttum um þessar mundir.

Á einhvern ótrúlegan hátt varð til að mynda til blaðamannafundur í Valhöll á mánudaginn sem engin ástæða var til að halda nema vegna þess að fjölmiðlamenn héngu þar æstir í anddyrinu með segulböndin sín. Á fundinum kom ekkert nýtt fram. Ekkert. Blaðamannafundur með blaðamönnum fyrir blaðamenn.

Eins og Vefþjóðviljinn vék að í gær eru þau mál sem veikt hafa Vilhjálm búin að liggja ljós fyrir síðan á haustmánuðum. Það hefur ekkert nýtt komið fram um REI-málin frá því í haust. Þá var afleiðingum þeirra fyrir borgarstjórnarflokk Sjálfstæðismanna frestað af óskiljanlegum ástæðum. Ef menn ætla sér á annað borð að skipta um oddvita hefði verið mun þægilegra að nýta tækifærið fyrr í vetur þegar borgarstjórastóllinn blasti ekki við þótt auðvitað hafi menn ekki séð fyrir að vinstri meirihlutinn yrði svo skammlífur.


Baksíða prófkjörsbæklings Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar vegna borgarstjórnarkosninga 2006.

En það eru ekki aðeins andstæðingar Vilhjálms sem eru honum erfiðir. Helstu stuðningsmenn hans hafa skilið hann eftir á berangri. Það er eitt að verða fyrir atlögum manna sem vitað var að myndu nýta færin þegar þau gæfust. Hitt hlýtur að valda meiri vonbrigðum að þeir forystumenn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem studdu Vilhjálm til að leiða borgarstjórnarflokkinn koma honum hvergi til varnar. En samt liggur heldur ekkert fyrir um að þeir vilji að hann víki. Þeir virðast helst vilja hafa hann áfram en án þess þó að þurfa að segja það svo aðrir heyri.

Ef Vilhjálmur ætlar að sitja áfram og taka við sem borgarstjóri að ári þá þætti honum án efa nokkur fengur að því að heyra helstu stuðningsmenn sína lýsa yfir stuðningi við sig.