V instri stjórnin á árunum 1988 – 1991 hækkaði tekjuskattshlutfall á einstaklinga úr 35,20 í 39,79%. Síðast þegar kratar hurfu úr ríkisstjórn, árið 1995, var skatturinn svo kominn í tæp 42%% og að auki var lagður á sérstakur „hátekjuskattur“ upp á 5% – að kröfu kratanna. Menn voru því að greiða allt að 47% tekjuskatt af hverri viðbótarkrónu sem menn unnu sér inn. Ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hurfu frá þessari kratastefnu og lækkuðu hæsta hlutfall tekjuskattsins úr tæpum 47% í þau tæpu 36% sem þau eru nú í. Að auki er nú hægt að fresta skattlagningu allt að 8% launa með því að leggja þau í lífeyrissjóð. Skatturinn er samt enn hærri en hann var þegar staðgreiðsla var tekinn upp á níunda áratugnum.
Viðskiptablaðið lagði í byrjun janúar til að tekjuskatturinn yrði lækkaður um til dæmis 2% án frekari málalenginga. Árni Páll Árnason þingmaður Samfylkingarinnar brást hinn versti við þessari tillögu í Silfri Egils 13. janúar með þeim orðum að þær væru „galnar“ og „galskapur af verstu sort“. Í grein í Fréttablaðinu 16. janúar skýrði hann þessa skoðun sína frekar með því að sé „óðs manns æði“ tefla efnahagslegum stöðugleika í hættu með „flatri skattalækkun sem brennur á verðbólgubáli áður en við er litið.“ Þetta er ekki mjög hófstilltur málflutningur um hóflega tillögu.
Árni Páll endurómar hins vegar bara það sem Samfylkingarmenn hafa sagt um allar skattalækkanir allt frá því Samfylkingin varð til um aldamótin. Það er aldrei rétti tíminn til skattalækkana að þeirra mati. Aldrei réttar aðstæður. Ýmist segja þeir skattalækkun valda þenslu í atvinnulífinu, samdrætti hjá ríkissjóði eða ógna stöðugleika. Alltaf skulu þeir halda því fram að almenningur eyði launum sínum bara í óþarfa sem auki verðbólgu og því þurfi stjórnmálamenn að taka þessa peninga af fólki.
Hvenær ætla kratar að hætta þessum fyrirslætti og segja hreint út að þeir séu einfaldlega á móti öllum skattalækkunum?