Þriðjudagur 5. febrúar 2008

36. tbl. 12. árg.

R annsóknastofnun um samfélags og efnahagsmál (RSE) hefur hleypt af stokkunum nýjum vef, RSE-blogginu, þar sem sagt er frá ýmsum forvitnilegum málum. Stofnunin hefur staðið fyrir fjölda áhugaverðra funda og gefið út merkileg rit eins og Leyndardóm fjármagnsins á undanförnum árum.

Í síðustu viku var til að mynda bloggað um mat á stöðu umhverfismála í 150 ríkjum sem var viðfangsefni rannsóknar hóps fræðimanna undir stjórn Daniel C. Esty, prófessors í umhverfisrétti við Yale háskóla. Esty kynnti nýlega niðurstöður rannsóknarinnar á hinni árlegu World Economic Forum ráðstefnu í bænum Davos í Sviss og sagt er frá þeim í grein í nýjasta hefti The Economist.

Í stuttu máli eru niðurstöður rannsóknarinnar þær að „grænasta“ stefna fátækra landa sé hagvaxtarstefna, það er að segja að til þess að koma umhverfismálum í gott lag sé mikilvægast að koma efnahagsmálum í gott lag. Samkvæmt rannsókninni er mest fylgni á milli góðrar stöðu í umhverfismálum og tekna á hvern íbúa í viðkomandi ríki. Þegar fátæk lönd komast í bjargálnir fjárfesta þau í ríkulega í umhverfislegum umbótum á borð við hreinna drykkjarvatni og betri sorphirðu, sem hafa bein áhrif á líf fólks og heilsu.

Hins vegar nægir velmegun ekki ein og sér samkvæmt rannsókninni, því að mun minni fylgni er milli hagvaxtar og stöðu umhverfismála í efnum sem ekki hafa bein og skjótvirk áhrif á líf fólks og heilsu, svo sem í mengunarmálum. Esty heldur fram að þá dugi velmegun ekki til, heldur séu rétt hugarfar og góðir stjórnarhættir lykillinn að árangri. Í góðum stjórnarháttum felst til dæmis gagnsæ og skilvirk stjórnsýsla.

Það er ekki hægt að segja að Vefþjóðviljanum komi þessar niðurstöður á óvart og hefur hann þó kláran fyrirvara á töfluæfingum hagfræðinga af þessu tagi. Margt sem flokkast til umhverfis- og náttúruverndarmála kostar sitt. Almenn velmegun eykur líkur á því að menn hafi efni á að vernda sjaldgæfar dýrategundir, friða land og hreinsa í kringum sig. Önnur afleiðing aukinnar velmegunar er aukinn útivist almennings. Göngur, veiði, hjólreiðar, betri vegir, betri bílar og fjallasport hafa bætt forsendur fyrir ýmiss konar náttúruvernd. Þetta er allt að koma. Valið stendur á milli sjálfsprettu af þessu tagi eða nota tilbúinn áburð ríkisins – skatta, reglur, boð og bönn – þar sem stjórnmálamönnum dettur í hug.