Mánudagur 4. febrúar 2008

35. tbl. 12. árg.
Farsælasta einkaframtak veraldarsögunnar.

H ún er seig umræðan um að ríkið þurfi að rétta í stjórnum fyrirtækja, draga karla og konur í dilka. Nú útilokar Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra ekki að grípa til slíks dráttar því hægt gangi að fjölga konum í stjórnum stærstu fyrirtækja landsins. Morgunblaðið töltir á eftir og fær enn eitt kærkomið tilefnið til að hreyta ónotum í viðskiptalífið. Fáir malda í móinn.

Þrátt fyrir þessa umræðu ætlar Vefþjóðviljinn að leyfa sér að halda því fram að konur hafi stýrt langflestum veigamestu einkafyrirtækjum á Íslandi um aldir.

Fjölskyldan og heimilið eru ekki aðeins algengasta félagsformið heldur einnig það farsælasta. Þessi litlu félög njóta gríðarlegra vinsælda og skila undantekningarlítið nýjum sjálfstæðum einstaklingum út í lífið. Geri aðrir betur. Flestir þessara einstaklinga eiga sér svo þá ósk heitasta að stofna eitt slíkt félag sjálfir. Flestum þessu frábæru félögum hafa konur stýrt af skörungsskap og gera enn þótt í seinni tíð starfi flestar þeirra einnig utan heimilis. Á þetta minnast þeir aldrei sem telja og kyngreina stjórnarmenn í 100 stærstu fyrirtækjum landsins í hverjum mánuði. Hverjir stýra 100 þúsund bestu fyrirtækjum landsins?

Það þarf auðvitað ekki að koma á óvart að þessi heimilisrekstur dragi athyglina frá öðrum rekstri. Hann gerir það hvort sem karl eða kona á í hlut. Og ekki ætlar Vefþjóðviljinn að halda því fram að það sé náttúrulögmál að rekstur heimilis lendi alfarið á öðru hjóna. Vafalaust segja einhverjir að þessi heimilisrekstur sé hálfgerð nauðung sem bitni einkum á konum. Það er ótrúverðugur málflutningur á meðan konur njóta allra sömu tækifæri og karla og hvergi er hallað á þær af ríkisvaldinu. Það kann að vera að hin dæmigerða verkaskipting hjóna hafi verið nauðsyn fyrr á árum, jafnvel ill nauðsyn. Nú um stundir er hins vegar hvorki hægt að tala um nauðsyn né nauðung í þessu sambandi. Hjón gera út um þessi mál á jafnréttisgrundvelli. Þeir sem halda öðru fram þykjast vita betur en þessir einstaklingar og vilja ráðskast með hagi þeirra.

Heimilisrekstur skilar yfirleitt ekki beinum tekjum og fyrir hann er sjaldan greitt með peningum. Hann leggur hins vegar grunn að farsælu lífi ansi margra. Þetta er sífellt vanþakkað með því að setja engan annan mælikvarða á mikilvægi einstaklinga, karla og kvenna, en talningu á fjölda þeirra í stjórnum fyrirtækja út í bæ. Það er í raun hlálegt að sumt fólk skuli jafn upptekið af jafn hégómlegum hlutum og lýðfræði stjórnarsæta. Get a life. Svokallaðir femínistar þurfa nauðsynlega að endurskoða gildismat sitt. Um leið og þeir átta sig á því að það eru til önnur verðmæti en efnisleg munu þeir jafnframt verða umburðarlyndari gagnvart gildismati annarra. Aðrir þurfa svo að skoða hvernig í veröldinni tókst að sannfæra femínista svo rækilega um að öll verðmæti heimsins megi mæla í krónum, aurum og stjórnarsætum.