Skattbyrði launafólks hefur þyngst síðan Samfylkingin komst til valda sé miðað við mælikvarða Stefáns Ólafssonar. |
S tefán Ólafsson prófessor og félagar hans í Samfylkingunni héldu því mjög stíft fram fyrir síðustu þingkosningar að tekjuskattur einstaklinga hefði hækkað. Þeir sögðu að „skattbyrði hefði aukist“, ekki síst hjá þeim lægst launuðu. Þetta kom ýmsum á óvart því hæsti tekjuskattur einstaklinga lækkaði úr tæpum 47% árið 1995 í tæp 36% árið 2007. Samfylkingarmenn höfðu raunar áður sagt það „mikil mistök hjá ríkisstjórninni að lækka skatta yfir línuna“ en það kom engum sérstaklega á óvart að þeir væru bæði andsnúnir öllum skattalækkunum og argir yfir því að skattar hefðu hækkað. Þetta er bara Samfylkingin.
Aðferðin sem Stefán Ólafsson notaði til að fá út aukna skattbyrði var í sjálfu sér bæði einföld og einfeldningsleg. Vegna persónuafsláttar greiða tekjuháir stærra hlutfall launa sinna í skatt en tekjulágir. Maður með 100 þúsund krónur í laun greiðir 1% launa sinna í skatt en maður með 10 milljónir greiðir nær 36%. Laun hækkuðu mikið á síðustu árum. Flestir fóru þar af leiðandi að greiða hærra hlutfall launa sinna í skatt því persónuafsláttur hækkaði minna en laun og tekjuskattsprósentan lækkaði ekki nógu skarpt til að vega á móti auknum tekjum.
En nú er Samfylkingin búin að vera í stjórn frá síðasta vori og væntanlega engin hætta á að skattbyrði hafi aukist með þessum hætti. Eða hvað?
Á síðustu 12 mánuðum hækkuðu laun að meðaltali um 10,1% (launavísitala). Persónuafsláttur hækkaði um 5,9% nú um áramótin og það er eina hækkunin frá þar síðustu áramótum. Tekjuskattsprósentan er óbreytt frá liðnu ári. Skattbyrði þeirra sem notið hafa almennrar launahækkunar hefur því óhjákvæmilega aukist frá því Samfylkingin komst til valda. Tvö dæmi:
- Maður sem hafði 120 þúsund krónur í laun fyrir ári greiddi 6% í tekjuskatt. Nú hefur þessi maður 132 þúsund krónur í laun og greiðir 7% í tekjuskatt. Aukin skattbyrði .
- Maður sem hafði 98 þúsund krónur í laun fyrir ári greiddi engan tekjuskatt. Nú hefur þessi maður 99 þúsund krónur og greiðir 1,3% tekjuskatt. Aukin skattbyrði.
Því lægri sem launin eru því meir hefur skattbyrðin þyngst á þennan mælikvarða Samfylkingarinnar – frá því Samfylkingin tók við völdum. Þetta eru auðvitað ekki stórkostlegar breytingar en Samfylkingin hefur heldur ekki verið lengi við völd.
Það hefði mátt koma í veg fyrir þessa auknu skattbyrði með því að lækka tekjuskattsprósentuna um rúmt 1% nú um áramótin. En æ það hefði verið of mikið frjálslyndi fyrir hina frjálslyndu umbótastjórn.