Þriðjudagur 15. janúar 2008

15. tbl. 12. árg.

N

ú um áramótin lækkuðu félagsgjöld í ýmis stéttarfélög úr 1% í 0,7% af heildarlaunum. Félagsgjaldið er því enn yfir 1% af tekjum eftir skatt í mörgum tilvikum. Maður með 300 þúsund króna launa greiðir 2100 krónur í félagsgjald en ráðstöfunartekjur hans eru 209 þúsund. Þess utan greiða atvinnurekendur oft mótframlag í sjúkrasjóð, endurmenntunarsjóð, orlofssjóð og svo framvegis.

Meðal þeirra félaga sem lækkuðu gjaldið var Efling sem áður mun hafa heitið Dagsbrún, Sókn, og Iðja. Í gær barst félagsmönnum Eflingar glanstímaritið Fréttabréf Eflingar og dagbók frá félaginu. Meðal efnis í tímaritinu er „hin hliðin“ á Gylfa Arnbjörnssyni framkvæmdastjóra ASÍ sem kominn er á 44″ og „geislar þegar hann segir frá ævintýrum sínum á fjöllum“. Hin sívinsæla krossgáta er einnig á sínum stað. Að öðru leyti minna bæði tímaritið og dagbókin á að stéttarfélögin eru nú um stundir fyrst og síðast einhvers konar afsláttarklúbbar og innkaupafélög. Þau bjóða upp á sumarhús og orlofsíbúðir á vildarkjörum vítt og breitt um landið og erlendis. Þau selja utanlandsferðir á góðum kjörum fyrir félagsmenn og standa fyrir alls kyns fræðslufundum og námskeiðum eða símenntun eins og það er kallað til að minnka áhugann. Þeir sem finna ekkert áhugavert til að eyða frítíma sínum í hjá félaginu geta fengið styrk frá félaginu, ehh frá sjálfum sér, til að gera eitthvað annað. Stéttarfélögin bjóða lögfræðiaðstoð fyrir félagsmenn og svo auðvitað ýmsar tryggingar eins og sjúkradagpeninga. Í dagbókinni góðu má finna myndir af starfsmönnum félagsins sem er mikilvægt því þeir skipta tugum er ómögulegt fyrir hinn almenna félagsmann að átta sig á því hver er hvað nema mynd fylgi. Starfsmennirnir þurfa einnig að vera þetta margir til að fylla glæsiskrifstofur félagsins. Í dagbókinni er allra daga ársins jafnframt getið, sunnudagar merktir rauðu til að auka hátíðleikann, og við hvern dag er nokkurt pláss svo félagsmenn geti fært inn athugasemdir frá eigin brjósti.

Allt er þetta alveg ágætt og ljóst að það má gera ýmislegt fyrir væna sneið af launum 16 þúsund manna.

En í alvöru, hverjum kæmi til hugar að skipta við fyrirtæki sem seldi saman í pakka, tryggingar, sumarhúsapláss, sólarlandaferðir, námskeið, glanstímarit og dagbækur? Og tæki hlutfall af launum fyrir pakkann? Ef þú vinnur yfirvinnu þá hækkar verðið á pakkanum.

Starfsemi stéttarfélaganna er þokukennd. Menn greiða mikla peninga til þeirra án þess að leggja mat á hvað er verið að greiða fyrir. Greiðslur frá vinnuveitendum í alls kyns aukasjóði gera kerfið enn flóknara og ógagnsærra því þessa peninga sér launþeginn sjálfur aldrei. Hann er heldur aldrei spurður hvort hann hafi áhuga á þessu.

Í dagbók Eflingar er svo inntökubeiðni í félagið. Hún er einkum ætluð þeim sem eru að greiða félagsgjöld til félagsins en njóta ekki réttinda sem félagsmenn! Efling sendir einnig greiðendum félagsgjalda bréf þar sem þeim er boðin aðild.