Mánudagur 7. janúar 2008

7. tbl. 12. árg.

Þ essi ríkisstjórn. Nú boðar viðskiptaráðherrann bann við ýmsum þeim viðskiptakjörum sem bankar hafa boðið viðskiptavinum sínum. Björgvin G. Sigðurðsson trúir því víst að hægt sé láta ýmsan kostnað við viðskipti hverfa með einhverjum reglugerðahókus-pókus.

Þannig ætlar ráðherrann að banna fólki að semja um uppgreiðslugjald gegn betri vaxtakjörum. Margir sem gera ekki ráð fyrir öðru en að vera langan tíma að greiða af íbúðalánum sínum og ætla sér ekki að hringla mikið með þau mál hafa tekið þann kost að undanförnu að þiggja lægri vexti gegn því að sett sé uppgreiðslugjald á lánið. Hvers vegna á að taka þennan kost af fólki? Bara til að geta þóst vera að gera eitthvað í „neytendamálum“? Að vísu virðist sem þetta bann muni aðeins ná til lána með breytilegum vöxtum og undir 50 milljónum en flest húsnæðislán eru með föstum vöxtum. Svo að kannski er þetta fyrst og fremst sjónarspil hjá ráðherranum.

Svo á að flækja það fyrir mönnum að semja um yfirdráttarlán upp að ákveðinni fjárhæð með þeirri kvöð að viss refsing sé við að fara yfir þá fjárhæð. Það er með öðrum orðum ekki útgjaldalaust að taka fé út úr bankanum án heimildar.  Þetta er öllum sem sækja um yfirdrátt í bönkum dagljóst en ráðherrann vill að um þetta smámál sé gerður samningur í þríriti. Mikill neytendafrömuður á ferð.

Að auki ætlar ráðherrann að banna bönkum að gera innheimtukostnað sýnilegan með svonefndum seðilgjöldum. Þeir viðskiptavinir fyrirtækja og stofnana sem vilja láta hafa fyrir sér með sífelldum gluggapósti eru auðvitað ekkert of heilagir til að greiða fyrir það. Eiga aðrir viðskiptavinir fyrirtækjanna kannski að taka þennan kostnað á sig? Það kostar að prenta þessa greiðsluseðla út, setja í umslag og senda með pósti. Hvers vegna má þessi kostnaður ekki sjást og lenda á þeim sem nýta sér þjónustuna? Var ekki umhverfisráðherra annars að skipa nefnd um pappírsúrgang? Það verður ekki minna að gera hjá þeirri nefnd þegar enginn þarf lengur að bera kostnað af því að láta senda sér greiðsluseðil.

Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur helst talið það ríkisstjórn sinni til tekna að hún hafi mikinn þingmeirihluta og geti því komið málum hindrunarlaust í gegnum þingið. Um þennan höfuðkost stjórnarinnar mátti meðal annars lesa í áramótagrein forsætisráðherrans. Og nú þarf ekki einu sinni að hlusta á nöldrið í vinstri grænum áður en hugmyndir ríkisstjórnarinnar verða að lögum því búið er að setja takmarkanir á ræðutímann.

Það er nú aldeilis gæfa að mál eins þau sem viðskiptaráðherrann boðar muni renna viðstöðulaust í gegnum þingið.