E itt albesta efni íslenskra fjölmiðla síðustu fjögur árin er greinaflokkur Ólafs Teits Guðnasonar um fjölmiðla. Þar hefur hann rakið og rökstutt ýtarlega ótal dæmi um ámælisleg vinnubrögð á íslenskum fjölmiðlum, mörg hver mjög alvarleg þar sem þau lúta að málum þar sem fólk verður að treysta á fjölmiðlaumfjöllun til að gera sér mynd af mönnum og málefnum. Þegar pistlar Ólafs Teits eru lesnir í samhengi – eins og auðvelt er að gera þar sem fyrstu þrjú árin hafa nú þegar verið gefin út á bók – sést hversu alvarlegt ástandið er, og hversu brenglaða mynd fólk getur fengið af íslenskum þjóðmálum ef það gleypir „fréttaskýringar“ og aðrar fullyrðingar íslenskra fjölmiðla hráar.
Eins og Egill Helgason minntist á í sínum vel heppnaða bókmenntaþætti á dögunum, þá eru þeir margir fjölmiðlamennirnir sem hreinlega hata Ólaf Teit vegna skrifa hans, ekki síst fyrir það að Ólafur Teitur „gengur gegn skjallbandalögum“, eins og Egill orðaði það. En þótt fjölmiðlamönnum sé mörgum illa við Ólaf Teit þá gengur þeim hægt að koma höggi á hann. Hafa þeir flestir horfið til þess ráðs, í stað þess að andmæla dæmum hans með hefðbundnum rökum, að beita hann ebóluröksemdinni. Ólafur Teitur er harður hægrimaður, er sagt með viðvörunartóni í röddinni og þarf þá ekki meira um málið að segja. Ólafur Teitur gleður hægriarm Sjálfstæðisflokksins er þó stundum bætt við til sérstaks áhersluauka, enda tekst þar með að koma tveimur ógnvænlegum öflum í sömu setninguna, en fyrir það fæst aukastig.
En vegna þessarar varnaraðferðar þá er athyglisvert að horfa til þess að þrír einstaklingar sem allir eiga það sameiginlegt að vera fróðir um fjölmiðla og eru alls ekki grunaðir um að vera sjálfstæðismenn, hafa skrifað ritdóma um bækur Ólafs Teits; Fjölmiðla 2004, Fjölmiðla 2005 og Fjölmiðla 2006. Og dómar þessara manna ættu að vera athugunarefni fyrir þá sem enn hafa ekki orðið sér úti um þessar nauðsynlegu bækur.
Í vetrarhefti tímaritsins Þjóðmála sem út kom í síðustu viku, fjallar Atli Rúnar Halldórsson, fyrrverandi fréttamaður á Ríkisútvarpinu, um Fjölmiðla 2006. Skemmst er frá því að segja að Atli Rúnar er mjög hrifinn af þessari nýjustu bók Ólafs Teits, og hikar ekki þó hann nefni í upphafi að menn „vinna sér inn fá prik hjá blaða- og fréttamönnum með því að lýsa þeirri skoðun að fjölmiðlarýni Ólafs Teits Guðnasonar í Viðskiptablaðinu sé uppáhaldsefni og til fyrirmyndar. Og Atli Rúnar heldur áfram:
Fjölmiðlarýni verður nefnilega að standa undir nafni og það gerir hún vissulega hjá Ólafi Teiti. Skrif hans um fjölmiðla hafa verið uppáhaldsefni hjá mér frá upphafi, einfaldlega af því hann gerir þetta vel: skrifar læsilegan texta, færir rök fyrir máli sínu og sýnir í verki hvernig fjölmiðlamaður beitir gagnrýninni hugsun til að komast nær kjarna máls. Hann er aftur og aftur ekki að gera annað en að herma upp á blaða- og fréttamenn aðferðafræði og vinnubrögð sem þeir segjast sjálfir ástunda og hafa reyndar margir hverjir numið í fagskólum og námskeiðum hér heima eða erlendis. … Ólafur Teitur fær yfirleitt innblástur í skrif sín í umræðu dagsins og einmitt það gerir þau að áhugaverðu innleggi í þjóðmálaumræðuna. Sjálfur leit ég svo á að pistlarnir gætu tæplega elst nógu vel til að vera bærilega gjaldgengir á bók og gefnir út ársgamlir og jafnvel eldri. Eftir að hafa lesið Fjölmiðla 2006 er ég hins vegar kominn á þá skoðun að pistlarnir eldist ágætlega og reyndar ætla ég nú í framhaldinu að komast líka yfir tvær fyrri bækur í ritröðinni til að rifja upp fjölmiðlarýni Ólafs Teits á árunum 2004 og 2005. Það sem meira er, ég rakst í nýju bókinni á nokkra pistla frá því í fyrra um mál sem hafði fennt yfir í minningunni en gagnlegt var og gaman að rifja upp. |
Atli Rúnar minnist þarna í lokin á bækurnar Fjölmiðla 2004 og Fjölmiðla 2005. Um Fjölmiðla 2004 skrifaði Þorbjörn Broddason, prófessor og fyrrverandi borgarfulltrúi Alþýðubandalagsins, í hausthefti Þjóðmála 2005 grein sem hann nefndi „Umboðsmaður lesenda“. Þorbjörn sagði bókina „óvenjulega og skemmtilega“ og eiga „erindi við allt áhugafólk um bætta fjölmiðlun“. Bókina mætti kalla einskonar árskýrslu umboðsmanns lesenda og sé hún „fróðleg og gagnleg lesning enda úrskurðirnir margir afbragðsgóðir“. Ekki er Þorbjörn þó samþykkur öllu sem Ólafur Teitur segir, en ólíkt mörgum öðrum færir hann rök en ekki hróp og uppnefni fyrir andmælum sínum.
Um Fjölmiðla 2005 skrifaði fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason í sumarhefti Þjóðmála 2006. Egill segir þar að furðulegt sé hversu fjölmiðlamenn sé viðkvæmir fyrir gagnrýni á eigin störf, svo ákafir sem þeir eru í að finna að störfum annarra:
Kannski hefur þetta eitthvað með hégómleika að gera – hann er mjög ríkur í fari blaðamanna. Því er ekki að undra að Ólafur Teitur Guðnason sé með óvinsælustu mönnum í íslenskri fjölmiðlastétt. Ég þekki margt fólk sem umhverfist þegar hann er nefndur á nafn. … „Fagleg“ umræða um fjölmiðla er oft á tíðum mjög leiðinleg, sérstaklega þegar hún verður mjög fræðileg. En það má Ólafur Teitur eiga að pistlar hans eru skemmtilega skrifaðir. Þeir eru mátulega ögrandi; hann er einn af þeim mönnum sem er hressandi að vera ósammála þegar þannig ber undir. Þess vegna gleypir maður í sig pistla Ólafs Teits þegar þeir birtast í Viðskiptablaðinu hvern föstudag. Það er líka mjög hentugt að fá þá á bók – þetta er prýðilegt yfirlit yfir það sem var að gerast í fjölmiðlum það árið. … Stundum heyrir maður að það sé ekki við hæfi að blaðamenn gagnrýni aðra blaðamenn – að þeir eigi að standa saman. Það er auðvitað fásinna. Við tilheyrum ekki gildi eins og iðnaðarmenn á miðöldum. Blaðamenn eru fólk með ólíkar skoðanir og þeir finna sér stað á ólíkum fjölmiðlum. Fjölmiðlum er líka mjög gjarnt að setja sig á háan hest, telja sig fjarska mikilvæga – fáir hafa betra af því að fá á baukinn en þeir sem hafa svo útblásið sjálf. |
Undir flest þessi orð má taka. Ritröðin Fjölmiðlar 2004-2006 er einstaklega fróðleg og skemmtilega skrifuð, algerlega ómissandi fyrir alla þá sem vilja vita hvað er í súpunni sem fjölmiðlamenn hræra og senda svo inn á heimilin, stundum beðnir, oftar óbeðnir. Bækurnar fást enn í Bóksölu Andríkis og kosta þar kr. 4900 saman í heimsendum pakka, en kr. 1890 hver um sig.