T æplega þrjátíu listamenn þessarar fámennu þjóðar fengu sérstök heiðurslaun samkvæmt ákvörðun alþingis nú í vikunni. Bandalag íslenskra listamanna er þó ekki sérstaklega ánægt. Meira að segja svo óánægt að formaður þess skrifar í blöðin til að kvarta. Félagið vildi að heiðurslaunaþegarnir yrðu enn fleiri og, það sem forsvarsmenn þess langar enn meira, þeir vilja fá að velja listamennina sjálfir. Það er nefnilega miklu faglegra en þegar þessir stjórnmálamenn gera það.
Hér er Vefþjóðviljinn algerlega ósammála. Úr því að ákveðið er að heiðra skuli hóp listamanna sérstaklega fyrir ævistarf fyrir íslenska menningu, þá er mun eðlilegra að það séu kjörnir fulltrúar landsmanna sem taki þá ákvörðun. Það er miklu eðlilegra að það séu stjórnmálamenn, sem landsmenn hafa þó kosið til áhrifa, sem velji heiðursþegana, heldur en það sé ráðandi klíka í samtökum listamanna hverju sinni sem útdeili til klíkubræðra.
Vefþjóðviljinn hefur árum saman talað fyrir því, að sem minnst vald sé hjá hinu opinbera, en sem mest af opinberu valdi sé hjá kjörnum fulltrúum en ekki „fagmönnum“. Hvort málið snýst um úthlutun listamannalauna eða annað, þá er staðreyndin sú, að á bak við fagurgalann um fagmennsku, er oft ekki annað en það að klíkurnar sem ráða á hverjum tíma í hverri grein, nota „faglega“ valdið, til þess að ýta undir klíkubræður en halda öðru fólki niðri. Og fjármunum eða öðrum málefnum borgaranna er þá ráðið til lykta af mönnum sem ekkert lýðræðislegt umboð hafa.
En fyrir nú utan þá augljósu staðreynd að „fagmennirnir“ hafa ekkert lýðræðislegt umboð þá er það nú einfaldlega svo, að verk þeirra eru mis gáfuleg, þó þau séu sett í faglegan búning með hátíðlegu orðalagi. Það vantaði nú ekki fagmennskuna þegar kærunefnd jafnréttismála fann út að einn helsti femínisti landsins, Valgerður Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri jafnréttisstofu og fyrrverandi bæjarfulltrúi Kvennalistans hefði brotið jafnréttislög, konu í óhag. Ekki var nú minni fagmennska á ferð þegar siðanefnd Prestafélags Íslands áminnti um svipað leyti einn félagsmann harðlega fyrir ókristilega framgöngu. Sá heitir Sigurbjörn Einarsson og er biskup. Misjafnt er hversu vel fjölmiðlamenn skilja þetta. En þó með einni undantekningu. Álit siðanefndar Blaðamannafélags Íslands gera þeir ekkert með.