V orið 2000 samþykkti Alþingi ný lög um foreldra- og fæðingarorlof. Með lögunum var sleginn nýr tónn í velferðaraðstoð á Íslandi. Aldrei fyrr hafði Tryggingastofnun ríkisins fengið lagafyrirmæli um að greiða ríkustu bótaþegunum mest en þeim fátækustu minnst. Vefþjóðviljinn gagnrýndi þetta og var nær einn um það. Hann taldi einnig að kostnaður við lögin væri vanmetinn og auðvelt væri að misnota svo galopið bótakerfi þar sem ekkert þak væri á bótum.
Kostnaður við nýju lögin átti samkvæmt áætlunum fjármálaráðuneytisins að verða um 1.500 milljónir króna þegar lögin kæmust til fullra framkvæmda árið 2004. Niðurstaðan árið 2004 varð hins vegar ekki 1.500 milljónir heldur 4.200 milljónir. Áætlaður kostnaðarauki reyndist aðeins 36% af raunverulegum kostnaðarauka. Allt frá setningu laganna hefur það verið árviss viðburður að skattgreiðendur bjargi Fæðingarorlofssjóði frá gjaldþroti. Við aðra umræðu fjárlaga nú á dögunum var ekki vikið frá þessari venju því 440 milljónum króna var bætt í Fæðingarorlofssjóð. Kostnaðaraukinn vegna laganna frá árinu 2000 er þá kominn í 6.600 milljónir sem er ansi langt frá þeim 1.500 milljónum sem fjármálaráðuneytið sagði þingi og þjóð að dæmið hljóðaði upp á.
Útgjaldaaukning vegna fæðingarorlofslaganna frá 2000 í milljónum króna á verðlagi hvers árs. |
Árið 2000 var lagt upp með að menn fengju 80% launa í fæðingarorlofinu. Þess voru dæmi að menn fengju mánaðargreiðslur frá Tryggingastofnun sem voru tvítugfalt hærri en stofnunin greiddi örorkulífeyrisþegum í tekjutryggingu á sama tíma. Þessu „framfaramáli“ greiddu allir þingmenn að Einari Oddi Kristjánssyni undaskildum atkvæði sitt. Jafnvel Pétur Blöndal var sérlegur stuðningsmaður laganna og taldi alveg nauðsynlegt að efnamenn fengju milljónir króna í bætur fyrir að vera heima með börnum sínum. Pétur gat sér gott orð á sama tíma fyrir að útskýra fyrir almenningi hvernig menn lifðu á 90 þúsund krónum á mánuði.
En hver var ástæðan fyrir því að menn eins og Pétur, sem að öllu jöfnu segjast gæta hófs í ríkisútjöldum, töpuðu áttum í þessu máli? Jú, það var kynnt sem mikil lausn í jafnréttismálum sem myndi eyða launamun kynjanna, bæta stöðu konunnar á heimilum, feður næðu loks sambandi við börn sín og hver veit hvað. Samkvæmt þeim sömu mælingum á launamun og notaðar voru til að réttlæta þessi ríkisútgjöld hefur launamunurinn nákvæmlega ekkert breyst frá því lögin tóku gildi. Ekkert.
Annað sem notað var sem röksemd fyrir því að greiða fullfrísku fólki hæstu félagslegu bætur í heimi var að „við viljum jú að þjóðinni fjölgi“. Ingólfur V. Gíslason „sviðstjóri rannsókna á Jafnréttisstofu“ hefur gefið í skyn í ræðu og riti að þetta hafi gengið eftir. „Nýju lögin frá 2000 virðast hafa haft áhrif til aukningar á frjósemi íslenskra kvenna.“, segir hann í nýlegri skýrslu um reynsluna af fæðingarorlofinu. Það er nú það. Fæðingartíðni meðal íslenskra kvenna er enn lægri en hún var árið 2000 þegar lögin voru sett. Ingólfur V. hefur sagt að það sé vegna þess að svo margir hafi viljað eignast „aldamótabarn“ svo það sé ekki að marka. Þróunin frá því lögin komu að fullu til framkvæmda árið 2004 hefur engu að síður verið marktækt upp á við. En að slá því föstu að það sé vegna fæðingarorlofsins er auðvitað langsótt með fullri virðingu fyrir sviðstjóra rannsókna hjá Jafnréttisstofu. Síðustu ár hafa verið velmegunartímar og hingað hafa einnig streymt útlendingar sem kunna að hafa haft áhrif á þessa þróun.