F
Fyrsta skref hinnar framfarasinnuðu frjálslyndisstjórnar til að gjörbylta landbúnaðarkerfinu er að halda upp á „Ár kartöflunnar 2008“ á kostnað skattgreiðenda. |
orsætisráðherra lýsti því yfir fyrir nokkrum dögum að bíða þyrfti með skattalækkanir vegna efnahagsástandsins. Jú það passar, hann er víst kominn í samstarf við Samfylkinguna. Það er aldrei rétti tíminn til að lækka skattana; þensla á vinnumarkaði, samdráttur í tekjum ríkissjóðs, stöðugleiki sem ekki má raska. En það má hins vegar auka ríkisútgjöldin sem aldrei fyrr.
Segjum nú að tekjuskattur einstaklinga hefði verið lækkaður eins og búið var að lofa og lögfesta um síðustu áramót. Myndi ríkisstjórnin þá hækka hann aftur upp í þetta eina rétta hlutfall sem hann er í nú um stundir, þetta hlutfall sem kemur í veg fyrir þenslu?
Ríkisstjórnin lagði í haust fram fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár með 30 þúsund milljóna króna afgangi þrátt fyrir að alls kyns ótrúlegum útgjöldum hafi verið bætt á reikning skattgreiðenda. Það á með öðrum orðum að taka 100 þúsund kall af hverjum landsmanni á næsta ári án nokkurrar ástæðu. Ríkissjóður er svo gott sem skuldlaus svo ekki þarf hann þessa peninga til greiðslu skulda.
En það má svo sem ekki taka það af þinginu að það gerir sitt besta til að þetta fé rykfalli ekki í Arnarhváli. Samkvæmt breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarpið koma 800 þúsund krónur af afganginum að gagni á Hinu íslenska reðursafni á næsta ári. Til mótvægis þeim kynjahalla, sem óumflýjanlegur er á reðursýningunni, fær Kvennasögusafn Íslands 2 milljónir króna. Jafnréttis er sömuleiðis gætt með því að Sjóræningjasafnið á Patreksfirði fær 5 milljónir króna en á móti fær Spákonuhofið á Skagaströnd sömu upphæð. Skrímslasögusafnið á Bíldudal mun torga 4 milljónum en þeir sem halda að það sé grín geta líka hlegið sig máttlausa í Kómedíuleikhúsinu sem fær 1,5 milljónir. Og þar sem eru komin svo mörg söfn á framfæri ríkisins er sjálfsagt að haldið verði utan um þau með því að Safnasafnið fái 8 milljónir. Útgáfa bókar um íslenska faldbúninginn kostar skattgreiðendur 4 milljónir á næsta ári. Víkingahátíðin í Hafnarfirði fær 1 milljón króna og verður glatt á hjalla hjá formanni fjárlaganefndar. Þá upphæð frá sömuleiðis báturinn Jóhanna og vélbáturinn Tóti sem á að endursmíða. Svo fátt eitt sé nefnt af listanum yfir söfn og minjavörslu.
Miklar vonir voru bundnar við hina framfarasinnuðu frjálslyndisstjórn í landbúnaðarmálum. Þess sér stað í fyrsta fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarnarinnar að hún ætlar að taka til hendinni í þeim málum. Fyrsta skrefið var raunar tekið strax í vor með því að gera þingmann Norðvesturkjördæmis að landbúnaðarráðherra og í eðlilegu framhaldi var framkvæmdastjóri Bændasamtakanna gerður að ráðuneytisstjóra. Það ætlar bara allt um koll að keyra í landbúnaðarmálunum. Næsta skref er svo stigið í fjárlagafrumvarpinu. Skattgreiðendur veita 1,5 milljónum króna til verkefnisins „Ár kartöflunnar 2008“.
Íslenskir skattgreiðendur verða þar með þeir fyrstu til að borga sjálfir fyrir kartöfluna sem þeir fá í skóinn.