Í sumar þótti Morgunblaðinu rétt að bjóða áskrifendum sínum upp á heillarmiðopnu „fréttabréf“ Sólveigar Kr. Einarsdóttur um áströlsk málefni, eins og Vefþjóðviljinn sagði þá frá. Þetta hefur sennilega þótt gefast svo vel að ástæða væri til að endurtaka leikinn nú í vikunni. Þá fengu áskrifendur blaðsins nýtt „fréttabréf“ Sólveigar frá Ástralíu og eins og áður var miðopnan lögð undir það, að forystugreinum einum undanskildum.
Og fleira var óbreytt frá því í sumar. Kosningar vofa yfir í Ástralíu og enn hefur ekkert jákvætt fundist um ríkisstjórnina sem þó tæpur helmingur kjósenda ætlar víst að styðja, þó slík fáheyrð tíðindi verði menn að vísu að finna annars staðar en í fréttabréfum Sólveigar Kr. Einarsdóttur og Morgunblaðsins. En margt annað má fræðast um þar og virðist allt ganga á afturfótunum í Ástralíu og skiptir litlu hvar borið er niður. „Útlitið er vægast sagt ekki gott í landbúnaðarmálunum“; „Gífurlegur skortur er á læknum og hjúkrunarfræðingum hér í álfu.“; „Ekki er ástandið betra á sviði tannlæknaþjónustu“; „Frásagnir af málum á sviði geðlækninga eru ef til vill verri en tannlækningarnar og verður þeim sleppt hér ásamt sögunni af kakkalakkanum á skurðarborðinu.“; „Hin nýja Vinnukostalöggjöf alríkisstjórnarinnar er afar óvinsæl meðal hinna vinnandi stétta og Verkamannaflokkurinn vill afnema hana“; „Um fátt hefur verið meira talað undanfarnar vikur hér í Ástralíu en vatnsskortinn“; „Fjórði hver unglingur í Ástralíu þjáist nú af offitu“ – og svona getur Sólveig Kr. Einarsdóttir þulið yfir áskrifendum Morgunblaðsins allan daginn.
Og hvað sem stjórnvöld gera þá verður það til ónýtis. Hún hefur lagt fé í „aðgerðir á móti hryðjuverkum og sett heilan frumskóg af lagasetningum þar að lútandi. Hingað til hefur árangurinn þó aðeins orðið stjórnmálalegt klúður á klúður ofan“ segir Sólveig, en af tómri tillitssemi lætur hún það þó vera að telja upp hryðjuverkin sem hafa þá líklega verið framin í landinu hvert á fætur öðru, úr því að ekkert hefur hafst upp úr hryðjuverkavörnunum annað en klúður á klúður ofan.
Erlendir þjóðarleiðtogar, þar á meðal Bandaríkjaforseti, sóttu Ástrali heim á dögunum og þar fór greinilega allt úrskeiðis líka. Til dæmis var öryggisgæslan allt of ströng: „Hin gífurlega öryggisgæsla kringum forseta Bandaríkjanna ofbauð mörgum. Miðborg Sydney var meira og minna lokuð almenningi og þar var afar strangt eftirlit.“ Annað sem fór illa á meðan á heimsókninni stóð, var að það var alls ekki nógu mikil öryggisgæsla: „Meðlimir í frægum gamanþætti (Chaser – war on everything eða „Stríð á hendur öllu“) á ABC-sjónvarpsstöðinni settu strik í reikninginn. Þátttakendur hans dulbjuggu sig sem kanadíska vélhjólagrúppu og var einn klæddur sem Bin Laden með skegg og tilheyrandi. Þeir komust mjög nærri bústað Bush forseta í Sydney áður en öryggisgæslan tók við sér og barst fréttin um leið um heiminn.“
Svona gengur allt á móti í Ástralíu. Að vísu er einstakur efnahagslegur uppgangur í landinu og hefur verið lengi undir núverandi ríkisstjórn Johns Howards og einhverra hluta vegna ætlar tæplega helmingur landsmanna að kjósa hann enn og aftur í kosningunum á laugardaginn. En um slíkar furður varðar áskrifendur Morgunblaðsins ekkert.