Þriðjudagur 6. nóvember 2007

310. tbl. 11. árg.
Það er eitthvað að þegar vestræn ríki dæla peningum til Afríku í marga áratugi en ungbarnadauði eykst samt sem áður.
– Sigríður Snæbjörnsdóttir og Sigurður Guðmundsson í viðtali við Fréttablaðið 4. nóvember 2007.

Í einhverjum fréttatímanum um síðustu helgi var rætt við Halldór Halldórsson formann Sambands íslenskra sveitarfélaga en grátkór sveitarstjórnarmanna heldur sína árlegu tónleika á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga um þessar mundir. Halldór lagði það til að ríkið tæki að sér að greiða skuldir sveitarfélaga og rökin voru einfaldlega þau að ríkissjóður skuldaði ekkert en sveitarfélögin fáránlega mikið. Þetta er svipuð rök og ríkisstjórnir þróunarlanda nota á Vesturlönd þegar þær biðja um niðurfellingu skulda.

Auðvitað er almennt ekki æskilegt að aðrir en þeir sem stofna til skulda greiði þær. Af mörgum slæmum leiðum til að bæta fjárhag sveitarfélaganna er þessi líklega sú versta sem nefnd hefur verið. Hún hvetur til ábyrgðarleysis í fjármálum sveitarfélaga og er þó nóg af slíku fyrir eins og staða þeirra er ber svo skýrt vitni.

En já sveitarfélögin eru voðalega illa stödd fjárhagslega. Í Morgunblaðinu í morgun er til dæmis sagt frá því að eitt þeirra ætli að reisa óperuhöll. Sveitarfélögin eru í fjárhagslegri bóndabeyju. Skammt þar frá tekur annað sveitarfélag þátt í að byggja tónlistarhús fyrir á annan tug milljarða króna. Það er voðalega slæm skuldastaða sveitarfélaganna. Þau sveitarfélög sem búin eru að byggja íþóttahús og leggja gervigrasvöll eru flest að taka grunn fyrir „fjölnotaíþróttahúsi“. Sveitarfélögin eru alveg aðþrengd fjárhagslega.

Í Fréttablaðinu á sunnudaginn var rætt við Sigríði Snæbjörnsdóttur hjúkrunarfræðing og Sigurð Guðmundsson lækni um dvöl þeirra í Afríku undanfarið ár við hjálparstarf. Þar vara þau við því að vestrænar ríkisstjórnir dæli peningum til þróunarlanda. Þetta eru ekki ný sjónarmið en það er nýlunda að heyra þau frá fólki sem kemur beint úr hjálparstarfi.

Kannski þau ættu að segja frá reynslu sinni frá Afríku á fjármálaráðstefnu íslenskra sveitarfélaga.