Tillaga Hayeks um samkeppni gjaldmiðla kann til dæmis að eiga við í eins litlu opnu hagkerfi og hinu íslenska. Þá á ég að vísu ekki við peninga, sem framleiddir væru af bönkum eða öðrum einkafyrirtækjum, heldur venjulega gjaldmiðla, svo sem bandaríkjadali, bresk pund, svissneskan franka, þýsk mörk og íslenskar krónur. Þið gætuð látið þessa gjaldmiðla keppa hvern við annan. Með öðrum orðum gætuð þið leyft fólki að velja, í hvaða gjaldmiðli það gerði fjárhagsskuldbindingar sínar. Þetta hlyti að veita valdsmönnum nokkurt aðhald, því að annaðhvort hætti íslenska krónan að falla í verði eða menn tækju upp aðra gjaldmiðla í viðskiptum, til dæmis þannig að svissneskur franki útrýmdi íslenskri krónu af peningamarkaðinum. |
– James Buchanan í fyrirlestri á Íslandi 1982. |
Á
Hundrað ára gamall seðill frá hlutafélaginu Íslandsbanka. |
kvörðun stjórnar Kaupþings um að skrá bréf félagsins í evrum og gera reikninga upp í sömu mynt kemur ekki á óvart. Evra er megin myntin í starfsemi bankans og undanfarið hefur bankinn flutt eigið fé sitt í erlenda mynt. Í samtali við fréttavef Morgunblaðsins í gær sagði stjórnarformaður Kaupþings að þessi breyting úr krónum í evrur hafi ekkert með það að gera að flytja höfuðstöðvar félagsins frá Íslandi né sé bankinn með einhverjar meiningar varðandi íslensku krónuna með því að taka þessa ákvörðun nú.
Þessi ákvörðun er í takt við það sem Vefþjóðviljinn hefur ætíð sagt; ef menn vilja taka upp annan gjaldmiðil en íslensku krónuna þá á sú ákvörðun ekki að vera miðstýrð stjórnvaldsákvörðun heldur sjálfsprottin þróun. Ákvörðun Kaupþings er hluti af þróun sem líklega er óhjákvæmileg eftir að stærstu fyrirtæki landsins hófu mikla starfsemi erlendis – og raunar urðu þau stærst á einmitt því að hasla sér völl víða um heim.
Árið 1982 lagði James Buchanan, sem hlaut Nóbelsverðlaun í hagfræði nokkrum árum síðar, til þá skipan mála sem nú er að verða að veruleika í fyrirlestri hér á landi. Það var löngu fyrir daga evrunnar. Buchanan var að leggja út af orðum F. A. Hayeks sem vildi afnema einkaleyfi ríkisins á myntsláttu og leyfa mönnum að velja á milli mynta eins og annarrar vöru og þjónustu. Fyrsta skrefið í þá átt er að leyfa þeim gjaldmiðlunum sem þegar eru til staðar að keppa sín á milli. Eins og ummæli Buchanans hér að ofan bera með sér gerði hann ráð fyrir að menn myndu vilja aðra gjaldmiðla vegna þess að krónan félli í verði. Af umræðunni undanfarið að dæma virðist helsti galli krónunnar þó vera hve hátt hún er metin gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Í raun er það þó sennilega smæð krónunnar og þar með hve áhættusöm hún er sem gerir aðrar myntir kræsilegri.
Þessi sjálfsprottna þróun á markaði hefur svo sérstakan kost umfram það að stjórnvöld velji mynt fyrir fólk og fyrirtæki. Markaðurinn treður Íslendingum ekki í ESB þótt hann skipti um mynt. En stjórnvöld gætu hæglega gert þau mistök að tengja nýjan lögeyri við inngöngu í ESB.
H in 14. apríl síðastliðinn lagði Bjarni Ármannsson þáverandi bankastjóri það til á landsfundi Samfylkingarinnar að löggjafinn bannaði fólki að semja um að launakjör þess væru einkamál. Þetta kallaði hann afnám launaleyndar. Í byrjun vikunnar flutti Morgunblaðið fréttir af samningum Bjarna og Orkuveitu Reykjavíkur um sölurétt á hlutum Bjarna í Reykjavík Energy Invest ef hann væri ekki kjörinn í stjórn félagsins, fengi ekki stjórnarlaun eða vatn hætti að renna niður í móti.
Morgunblaðið bar þennan samning um kaup og kjör Bjarna undir hann og forstjóra Orkuveitunnar: „Hvorki Bjarni Ármannsson né Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, vildu tjá sig um málið og sögðu mögulega samninga vera trúnaðarmál milli samningsaðila.“