U mræðan um sameiningu Reykjavik Energy Invest og Geysir Green Energy hefur auðvitað farið út um víðan völl eins og algengt er hér á landi. Umræðan hefur á hinn bóginn skilað einu; það er að skilningur virðist fara vaxandi á því að óheppilegt sé að opinberir aðilar standi í umsvifamiklum atvinnurekstri sem hefur það markmið að skila hagnaði. Það er í sjálfu sér ekki lítils virði. Þetta eru kannski ekki nein nýmæli eða stórtíðindi fyrir lesendur Vefþjóðviljans enda hefur blaðið lagt áherslu á sjónarmið af þessu tagi í meira en áratug.
Hins vegar er ánægjulegt að fylgjast með því að ýmsir, sem fram til þessa hafa talið mikilvægt að umsvif opinberra aðila væru sem mest, virðast nú hafa snúist og finna fjölbreyttum umsvifum Orkuveitu Reykjavíkur í atvinnurekstri flest til foráttu. Sjónarmið að þessu tagi hafa síðustu daga jafnvel heyrst úr röðum gallharðra vinstri manna, bæði úr hópi stjórnmálamanna og fjölmiðlunga. Vonandi er hér um að ræða raunverulega breytingu á hugarfari en ekki pólitíska hentistefnu, sem hefur það eitt að markmiði að koma höggi á borgarstjórann í Reykjavík og samstarfsmenn hans. Það á auðvitað eftir að koma í ljós og verður forvitnilegt að fylgjast með framvindunni að því leyti.
Annað mikilvægt, sem þetta mál virðist hafa haft í för með sér, er að æ fleiri átta sig á því að það er enginn munur á umsvifum borgarfyrirtækja í atvinnurekstri og ríkisfyrirtækja. Fram til þessa hafa það sjónarmið átt sér ófáa formælendur, að einhvern veginn væri miklu skárra að borgin og borgarfyrirtæki – og raunar einnig önnur sveitarfélög og fyrirtæki þeirra – stæðu í rekstri af ýmsu tagi en að ríkið hefði slíka starfsemi með höndum. Fólk, sem hefur verið gagnrýnið á ríkisrekstur og ríkisumsvif, hefur af einhverjum sökum litið umsvif sveitarfélaga allt öðrum augum. Afstaða af því tagi styðst auðvitað ekki neina skoðun. Að sjálfsögðu er enginn munur á því hvort stjórnmálamenn og embættismenn á vegum sveitarfélaga eða stjórnmálamenn og embættismenn á vegum ríkisins blanda sér fyrirtækjarekstur. Í báðum tilvikum eru þessir menn að fara út fyrir sitt verksvið og blanda sér í starfsemi sem einstaklingar og einkafyrirtæki ættu jafnan að hafa með höndum. Það kann að vera freistandi fyrir stjórnmálamenn að leika viðskiptamógúla – og fyrir Björn Inga Hrafnsson að leika Alfreð Þorsteinsson – en það er einfaldlega freisting sem menn verða að standast.
Þegar menn ræða þátttöku borgarfyrirtækis í fjárfestingarstarfsemi og umsvifamiklum rekstri víða um heim er rétt að rifja upp að fáir mæla því nú bót að sama fyrirtæki stæði í risarækjueldi og samkeppnisrekstri á fjarskipasviðinu. Eins eru fáir sem sjá eftir þátttöku borgarinnar í framleiðslu á rörum og gangstéttarhellum. Ekki eru heldur lengur margir sem telja að bankarnir hefðu áfram átt að vera í eigu ríkisins og að ríkisfyrirtæki hefðu með höndum rekstur prentsmiðju, ferðaskrifstofu, sementsframleiðslu, bókaútgáfu og svo má lengi telja. Ekki þarf að leita langt aftur til að finna tilvitnanir í fjöldamarga stjórnmálamenn sem töldu ríkisrekstur á þessum sviðum mikilvægan og jafnvel nauðsynlegan. Þær raddir eru nú að mestu hljóðnaðar og ekki einu sinni Vinstri grænir hafa það á stefnuskrá sinni að endurlífga þær risaeðlur ríkisrekstrarins sem hér um ræðir. Þetta er hollt að hafa í huga þegar einhverjir stjórnmálamenn halda því fram í dag að eignaraðild borgarinnar eða borgarfyrirtækja í útrásarfyrirtæki á orkusviðinu sé mikilvæg – ef ekki bráðnauðsynleg.