H
Ætli iðnaðarráðherra telji að á netþjónabúum sé stundaður sjálfbær sjálfsþurftarbúskapur. |
ver er munurinn á framleiðslu á raforku fyrir álver annars vegar og netþjónabú hins vegar? Flestir mundu segja að munurinn sé enginn en nú er komið í ljós að á þessu tvennu er allur munur. Þetta sést á því að ekki minni maður en Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra telur uppsetningu netþjónabúa „meiriháttar tækifæri“ fyrir Íslendinga. Sami maður hefur allan vara á gagnvart álverum og hefur vægast sagt lítinn áhuga á frekari uppbyggingu þeirra hér á landi.
Össur segir sjálfur að orkuþörf mögulegra netþjónabúa gæti verið svipuð og 250.000 tonna álvers og þá hefðu sumir haldið að til að knýja þessi netþjónabú þyrfti svipaðar virkjanir og til að knýja álverin. En þessu fer fjarri ef marka má ólík viðhorf iðnaðarráðherra til álvera og netþjónabúa. Til að knýja álver þarf að veita ám, stífla ár, bora eftir jarðhita eða beita öðrum kunnuglegum aðferðum til að afla raforku. Til að knýja netþjónabú þarf að veita ám, stífla ár, bora eftir jarðhita eða beita öðrum kunnuglegum aðferðum til að afla raforku. En þó að þetta tvennt hljómi eins er ljóst að það er blekking ein enda iðnaðarráðherra ekki maður sem fer með fleipur.
Ýmsir hafa hingað til talið sig hafa skilið Samfylkinguna þannig að hún hefði aðallega efasemdir um álver á þeirri forsendu að til að reka þau þyrfti að afla mikillar orku og að það gerðist ekki nema með einhvers konar virkjunum og þar með raski á náttúrunni. Samfylkingin samdi mikla stefnulýsingu í þessum málaflokki undir nafninu Fagra Ísland. Einhverjir skildu hana svo að virkjanir væru óæskilegar og að náttúran ætti að fá að vera sem mest í friði fyrir virkjunum.
Þetta var hins vegar misskilningur. Nú er komið í ljós að Samfylkingin var ekkert á móti því að virkja allar mögulegar sprænur og bora um öll jarðhitasvæði landsins. Samfylkingin telur það „meiriháttar tækifæri“ að fá að virkja meira. Flokkurinn er einungis á móti álverum, ef virkjað er vegna annars konar starfsemi þá má sleppa stórvirku vinnuvélunum lausum hvar sem er.