Laugardagur 1. september 2007

244. tbl. 11. árg.

Þ egar litið er á þróun útgjalda hins opinbera mætti halda að engin leið sé að finna krónu sem spara mætti. Útgjöldin aukast sífellt og stjórnmálamenn virðast hafa gefist upp fyrir því verkefni að hafa hemil á þeim, þeir taka bara þátt í dansinum í trausti þess að nægilega fáir finni að því að útgjöldin aukist. Þeir vonast einfaldlega til að komast upp með útgjöldin og vilja fremur baða sig í sviðsljósinu og fá birtar um sig „jákvæðar“ fréttir en sinna því verkefni að fara vel með fé skattgreiðenda.

Ef stjórnmálamenn eru spurðir hvernig standi á því að útgjöld aukist sífellt – sem þeir þurfa raunar sjaldan að svara – þá láta þeir eins og öll þau verk sem hið opinbera vinnur séu ómissandi. Eða, ef bent er á eitthvert furðuverk, þá finnst þeim óþarfi að byrja sparnaðinn þar, það sé örugglega eitthvað verra eða dýrara gert fyrir fé almennings. Og vissulega má til sanns vegar færa að fátt er svo arfavitlaust að ekki megi finna eitthvað verra. Það þýðir þó ekki að hætta eigi við að spara næstvitlausasta verkið, aðeins að finna eigi öll vitlausu verkin og fella þau niður. Þetta þarf ekki að gerast allt í einu, menn eiga einfaldlega að grípa það sem hendi er næst og byrja þar. Og halda svo áfram koll af kolli.

Ráðherrar gætu til dæmis byrjað að vafra um vef stjórnarráðsins og skoða hvort þar megi ekki finna matarholu fyrir skattgreiðendur. Við skulum líta á nokkur dæmi, nánast af handahófi:

1) Á vef landbúnaðarráðuneytisins var þann 14. þessa mánaðar skýrt frá því að landbúnaðarráðherra hafi sótt heimsmeistaramót íslenska hestsins í Hollandi og dvalið þar í nokkra daga. Dettur einhverjum í hug að þessi ferð hefði ekki mátt missa sín?
2) Sama dag var á vef umhverfisráðuneytisins greint frá því að unnið sé að mati á tilnefningu Surtseyjar á Heimsminjaskrá UNESCO. Umsóknin um að setja Surtsey á þennan lista Sameinuðu þjóðanna er allt annað en ódýr og hefur kostað mikinn undirbúning. Eru það útgjöld sem skattgreiðendur gætu ekki verið án?
3) Daginn áður var tilkynnt um það á vef utanríkisráðuneytisins að starf fjölmiðlafulltrúa sé laust til umsóknar, eins og hér hefur áður verið fjallað um. Er virkilega engin leið fyrir utanríkisráðherra að láta aðstoðarmann sinn og aðra starfsmenn ráðuneytisins halda uppi samskiptum við fjölmiðla?
4) Nokkrum dögum áður var tilkynnt um stofnun sendiráðs Íslands á Indlandi. Getur verið að fjármunirnir sem fara í það verk væru betur komnir í vösum eigenda sinna, skattgreiðenda?
5) Í byrjun mánaðarins var sagt frá því á vef heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins að settur hefði verði nýr forstjóri Lýðhelsustofnunar – afsakið, Lýðheilsustöðvar – í eitt ár. Nú skal ekki amast við því að forstjórar séu settir yfir stofnanir, en hefur einhver velt því fyrir sér hvort hugsanlegt sé að leggja þessa stofnun – afsakið, stöð – niður að hluta eða í heild sinni? Finnst mönnum raunveruleg ástæða til að halda úti stofnun sem hefur það sem helsta hlutverk að segja fólki hvað sé hollt og hvað óhollt? Er ríkið ekki með slíkri stofnun komið talsvert langt út fyrir réttmætt hlutverk sitt?
6) Fyrst minnst er á neyslu, hvernig væri þá að skoðuð væri nauðsyn lítillar stofnunar sem heyrir undir viðskiptaráðuneytið, Talsmaður neytenda. Getur verið að það sé bara alls ekki hlutverk ríkisins að halda úti slíku embætti?
7) Hvað með nýlega tilkynningu félagsmálaráðuneytisins um ljósmyndasamkeppni sem félagsmálaráðuneytið efndi til í samvinnu við vinnuskóla landsins, var þetta óhjákvæmilegt verkefni hins opinbera? Sennilega var þetta ekki mjög dýrt, en þarf ekki stundum að spyrja grundvallarspurninga um hlutverk hins opinbera áður en ákvörðun er tekin um að eyða fé almennings?

Þessi dæmi sem hér eru nefnd eru flest smá en aðeins örfá af þúsundum verkefna sem hið opinbera gæti vel látið vera að sinna. Ekkert þessara verkefna er nauðsynlegt, öll mætti eða hefði mátt spara og skilja fjármunina sem til þeirra var varið eftir í vösum skattgreiðenda. Þetta er spurning um viðhorf til fjármuna sem eru í höndum hins opinbera og því miður virðist viðhorfið býsna oft þannig að fjármunirnir liggi undir skemmdum og þeim verði að eyða hið allra fyrsta. Og hvað sem öðru líður verði í það minnsta að koma í veg fyrir að eigendurnir nái til þeirra.