Þ að er áhugavert sjónarmið sem Lysander Spooner setur fram í bók sinni Löstur er ekki glæpur að ríkið geti ekki tekið sér rétt sem einstaklingarnir höfðu ekki fyrir daga ríkisvaldsins. Hvaða réttur er meðfæddur hverjum manni? Rétturinn til sjálfsvarnar hlýtur að vera þar á meðal. Einstaklingurinn getur því framselt ríkinu réttinn til að verja sig gegn ofbeldi, þjófnaði og öðrum átroðningi annarra manna. Flest ríki hafa raunar tekið þetta hlutverk að sér – án þess að spyrja menn – með löggæslu og réttarkerfi þótt árangurinn sé misjafn.
En hvað með réttinn til að fara inn á veitingastað og hrifsa vindling úr munni náungans? Er hann meðfæddur? Hvað með réttinn til að fara inn skemmtistað og hengja laufblað á nektardansarana, setja áhorfendur í kalda sturtu og loka staðnum? Hvað með réttinn til að halda fyrir muninn á þeim sem ætlaði að segja eitthvað fallegt opinberlega um vindlana sem hann gaf í afmælisgjöf? Eru þetta náttúruleg réttindi einstaklingsins sem hann getur framselt ríkinu?
Nei hér eru menn ekki að verja sjálfa sig fyrir ágangi annarra heldur skipta sér af hegðun annarra manna sem ekki verður séð að varði aðra en þá sjálfa.
Markmiðið með refsingum fyrir lesti er andstætt markmiðinu með því að refsa fyrir glæpi. Með refsingum fyrir glæpi er verið að vernda frelsi manna fyrir ótroðningi annarra. Með refsingum eða afskiptum af löstum er einmitt verið að troða á mönnum. Gefum Spooner orðið:
Markmiðið með refsingu fyrir glæpi er því ekki aðeins að öllu leyti annað en með refsingu fyrir lesti heldur í algjörri andstöðu við það. Markmið með refsingu fyrir glæpi er að tryggja öllum á sama hátt eins mikið frelsi og mögulegt er – í samræmi við jafnan rétt annarra – til að leita eigin hamingju undir leiðsögn eigin dómgreindar og með nýtingu eigin eigna. Markmiðið með refsingu fyrir lesti er hins vegar að svipta alla menn meðfæddum rétti og frelsi til þess að leita eftir hamingju að eigin hyggjuviti og með nýtingu eigin eigna. Þessi tvö markmið eru því algjörar andstæður. |
Spooner virðist hins vegar hafa gert sér grein fyrir að erfitt yrði að takmarka vald ríkisins við það að vernda einstaklingana gegn ofbeldi hvers annars. Í ritinu An Essay on The Trial by Jury sem kom út árið 1852 lagði Spooner til byltingarkenndar úrbætur á réttarkerfinu. Hann vildi ekki aðeins að kviðdómur dæmdi í öllum málum um efnisatriði máls, sekt og sýknu heldur tæki kviðdómur einnig afstöðu til réttmætis laganna sem vörðuðu efni málsins. Í kviðdómi ættu að sitja 12 menn valdir af handahófi og hver um sig hefði afl til að forða hinum ákærða frá sakfellingu. Þetta myndi í raun þýða að hver og einn kviðdómenda gæti ógilt lög sem hinum 11 þætti eðlilegt að sakfella eftir. Með þessu taldi Spooner að réttur einstaklingsins gegn óréttmætum lögum væri best tryggður.