V
Hvers vegna er borgin að bjóða íbúum upp á pappírssöfnun þegar einkafyrirtæki gera það nú þegar? |
efþjóðviljinn hefur um árabil viðrað efasemdir um að það sé umhverfisvænt að Reykvíkingar safni pappír saman á heimilum sínum, aki svo með hann í sérstaka gáma á söfnunarstöðvum, pappírinn sé svo fluttur í böggun Í Gufunesi og svo aftur niður á bryggju þar sem hann fer í skip til Svíþjóðar. Það liggur ekkert fyrir um að allt þetta umstang sé umhverfisvænna en að pappírinn fari á haugana með öðru heimilissorpi. Það er enginn skortur á pappír í heiminum og pappírsframleiðendur planta fleiri trjám en þeir höggva.
Reykvíkingar hafa heldur ekki gleypt við þeim órökstudda áróðri borgaryfirvalda að þetta sé umhverfisvænt. Í það minnsta er pappír enn stærsti hluti sorpsins (27% af þyngd) í tunnu venjulegs heimilis.
Nú hafa borgaryfirvöld játað sig sigruð í þessari baráttu fyrir því að borgarbúar helgi líf sitt þessu sorpföndri og ruslabíltúrum. En það gera þau auðvitað ekki með því að leggja þessa starfsemi borgarinnar niður. Nei, úr því þetta gekk ekki er bætt við nýrri starfsemi á þessu sviði. Eilífðarvélar borgarinnar fara aldrei á haugana.
Reykjavíkurborg mun því framvegis bjóðast til að sækja pappírinn heim til borgarbúa. Þeir sem hafa áhuga á því munu fá bláa tunnu við hlið þeirrar svörtu sem annað sorp fer í. Ætli borginni gangi vel að sannfæra borgarbúa um að tvær tunnur í stað einnar og tveir ruslabílar í stað eins séu góð leið til að draga úr sóun og vera umhverfisvænn? Þeir sem hafa svo mjög gaman af því að föndra með sorpið sitt geta líka fengið græna tunnu. Vefþjóðviljinn hefur ekki kynnt sér hvað menn eiga að setja í hana en kannski er hún undir tímann sem fer til spillis við ruslföndrið.
Í Morgunblaðinu 18. ágúst síðastliðinn er haft eftir Gísla Marteini Baldurssyni formanni umhverfisráðs borginnar að menn fórni verðmætum ef pappír sé ekki safnað saman og hann (pappírinn) seldur til Svíþjóðar. Ef Svíar greiða svo vel fyrir pappírinn að þetta sé fundið fé hvað er borgin þá að sýsla með þetta? Hví ekki að láta einkafyrirtækjum, sem þegar bjóða söfnunarþjónustu af þessu tagi, það eftir að sækja þessi miklu verðmæti heim til manna og selja Svíum dýrum dómum?
Í viðtalinu segir Gísli Marteinn einnig að menn spari dýrmætt land á sorphaugunum í Álfsnesi með því að senda pappír til endurvinnslu. En hvað með landið sem færi undir 40 þúsund bláar tunnur ef öll heimili í borginni fengju sér eina slíka? Það land væri á við þrjá knattspyrnuvelli. Og hvað með orkuna og efnið sem færi í að framleiða og tæma 40 þúsund aukatunnur fyrir borgarbúa? Eða 80 þúsund ef allir fengju sér líka græna tunnu?