Mánudagur 27. ágúst 2007

239. tbl. 11. árg.

S

Fari Ronaldo heim til Brasilíu með launin sem hann fékk fyrir boltaleikinn með Real Madrid er hætt við að fátækt aukist þar á mælikvarða Stefáns Ólafssonar. Ronaldo er fjórði maður frá vinstri á næst fremsta bekk.

kammt er um liðið síðan hinn hlutlausi og óumdeildi fræðimaður dr. Stefán Ólafsson prófessor minnti síðast opinberlega á þá augljósu staðreynd að með hærri launum landsmanna aukist að sama skapi fátækt landsmanna. Jafnvel þótt laun allra landsmanna hækki, þá verður fátæktin þeim mun átakanlegri sem hæstu laun hækka. Að vísu hafa nokkrir úrtölumenn leyft sér að draga þessi sjálfgefnu sannindi í efa, eins og Vefþjóðviljinn hefur áður fjallað um, en það er önnur saga.

Þrátt fyrir launahækkunar-fátæktina hér á landi finnast svæði á plánetunni sem búa við annars konar fátækt. Þar er um að ræða svokallaða alvöru fátækt, eða sára fátækt. Eiga-hvorki-til-hnífs-né-skeiðar-fátækt. Hungurmorða-fátækt. Það sem er svo merkilegt við þessa fátækt er að hún virðist bara ekkert versna þó að laun fólks í viðkomandi landi hækki. Þvert á móti eru til slík svæði þar sem fátækt er á hröðu undanhaldi samhliða því að laun íbúanna hækka – og það jafnvel þó munur á lægstu launum og miðgildi allra launa vaxi hröðum skrefum.

Mið- og Suður-Ameríka er eitt slíkra svæða. Ríki álfunnar eru ekki þau allra fátækustu, meðallaun í flestum ríkjum á svæðinu eru hærri en í meirihluta ríkja Afríku. Raunar er Suður-Afríka eina ríki Afríku þar sem meðallaun eru hærri en í flestum ríkjum Mið- og Suður-Ameríku. En íbúar Mið- og Suður-Ameríku hafa samt sem áður ekki farið varhluta af sárri fátækt. Árið 1982 dóu 82 börn í Brasilíu pr. 1000 íbúa og meðallífslíkur náðu ekki 63 árum. Í Perú nam ungbarnadauðinn á sama tíma 117 börnum pr. 1000 íbúa. Árið 2004 hafði ungbarnadauði hins vegar dregist saman um yfir 60% og meðallífslíkur aukist í yfir 70 ár í báðum ríkjum. Frá því á síðari hluta níunda áratug liðinnar aldar hafa ríki álfunnar haldið í við eða farið fram úr mörgum ríkjum í öðrum álfum sem hafa einnig búið við batnandi hag að þessu leyti, svo sem Kína, Egyptaland, Tyrkland og Suður-Afríku. Í nýjasta tölublaði tímaritsins The Economist er meðal annars fjallað um ástæður þess að í þessari heimsálfu er að fæðast ný millistétt og í því sambandi einkum litið til Brasílíu, Perú, Mexíkó, Argentínu og Kólumbíu. Í greininni er meðal annars rakin saga ríkisvæddrar iðnvæðingar margra ríkja álfunnar fram á áttunda áratug síðustu aldar með meðfylgjandi offjölgun í röðum opinberra starfsmanna og loks eftirfarandi efnahagslegt hrun og óðaverðbólgu. Niðurstöður blaðsins er að sú fjölgun sem orðið hefur í millistéttum þessara ríkja, samhliða fækkun þeirra lægst launuðu (sbr. í Brasilíu þeirra sem höfðu innan við sem nemur einungis 200.000 krónum í árslaun), sé einkum að rekja til stöðugleika í efnahagslífi þessara landa, einkavæðingar, tiltölulega lágrar verðbólgu, meðfylgjandi lánatækifæra til atvinnurekstrar og einkaneyslu, auk aukinna tækifæra til frjálsrar atvinnusköpunar í stað ríkisstýrðs þungaiðnaðar.

Alhæfingar eru ávallt vandmeðfarnar og einkum þegar rætt er um heilar heimsálfur. En það mætti samt sem áður næstum því gera sér þær grillur að aukin velsæld í þessum ríkjum hafi beinlínis haft þau áhrif að dregið hafi úr fátækt í þeim. Grillur sem næsta víst er að hlutlausir og óumdeildir fræðimenn eiga vafalaust eftir að njóta dyggrar aðstoðar hérlendra fjölmiðla við að leiðrétta. Aftur og aftur.