Þ að koma fleiri bækur út en þær sem hæst eru auglýstar eða mest látið með. Meðal fróðlegra og skemmtilegra bóka síðasta árs er ein sem lítið fór fyrir opinberlega, Æviminningar Jóhannesar Zoëga, hitaveitustjóra. Zoëga þótti snemma afburðaverkfræðingur og varð afar farsæll í því starfi sem hann varð þekktastur fyrir, þegar hann var hitaveitustjóri í Reykjavík á miklum uppbyggingartímum hitaveitunnar, þó vinstripressan hafi lengi fundið hitaveitunni margt til foráttu og gert sem mest úr því sem aflaga fór hjá veitunni.
Áður en Jóhannes var ráðinn til hitaveitunnar var hann meðal annars forstjóri Landssmiðjunnar sem ríkið rak á þeim árum. Í ævisögu sinni segir Jóhannes að Landssmiðjan hafi raunar ekki fengið krónu í styrk úr ríkissjóði þau ár sem hann hafi stýrt henni, en „sem verra var, hún fékk heldur aldrei nein lán frá Landsbankanum sem var hennar viðskiptabanki. Jón Árnason, sem öllu réð í bankanum meðan hann sat, sagði mér að ég gæti sótt peninga til ríkisins, það ætti nóga peninga. Landsbankinn hefði enga peninga. Það var rétt hjá karlinum, peningar Landsbankans voru allir hjá Sambandinu.“ Á starfsferli sínum fékk Jóhannes Zoëga margar góðar hugmyndir. Eina ágæta fékk hann á Landssmiðjuárum sínum:
Tillaga mín var að ríkið seldi Landssmiðjuna og hún yrði hlutafélag í einkaeign. Ég skrifaði blaðagreinar um þessa einkavæðingu árið 1962. Ekkert varð af því þá, hugmyndin var á undan sinni samtíð, en fékk undirtektir Morgunblaðsins. Þá brá svo við að bæði kratarnir á Alþýðublaðinu og hinar stóru smiðjurnar brugðust hatrammlega gegn því. Alþýðublaðið vildi halda í ríkiseignina en smiðjurnar vildu leggja Landssmiðjuna niður. |
Jóhannes varð hitaveitustjóri þetta sama ár, 1962 og stýrði hitaveitunni í aldarfjórðung. Það var lengst af uppbyggingartími, en stundum svarf þó að, ekki síst á valdatíð vinstriflokkanna árin 1978-1982. Þegar líða fór á það tímabil var Hitaveita Reykjavíkur orðin svo illa sett að hún hafði ekki alltaf efni á að leggja hitaveitu í ný hús í borginni. Á þessum árum var einnig vinstri stjórn í landinu svo landsmenn gátu haft áhyggjur af mörgu öðru en heitavatnsleysi.
Forkólfar ríkisstjórnarinnar héldu að þetta aðgerðarleysi okkar væri aðför að stjórninni, sérstaklega fór Ólafur Ragnar Grímsson hamförum eftir að hann uppgötvaði að við Geir Hallgrímsson værum þremenningar. Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra lét hafa það eftir sér að það væri algert lögbrot að leggja ekki hitaveitu í öll hverfi borgarinnar. Um þær mundir var boðað til fundar borgarfulltrúa og þingmanna Reykjavíkur að frumkvæði Davíðs Oddssonar, en vinstri menn voru í meirihluta í borginni þá. Gunnar byrjaði fundinn á því að tala um að það væri algjörlega óþolandi að Hitaveitan stæði fyrir lögbrotum. Ég lét það þá út úr mér að meðan Gunnar hefði verið borgarstjóri hefði hitaveita ekki verið lögð í eitt einasta hús í borginni. Mér væri ekki kunnugt um að lög hefðu breyst neitt frá þeim tíma. Eftir þetta var ekki talað eitt orð um lögbrot í þessu samhengi. |
Fáir menn höfðu meira vit á hitaveitumálum en Jóhannes Zoëga. Skoðanir hans á ýmsum tiltækjum eftirmanna hans við veitustjórn í Reykjavík eru því forvitnilegar. Um hitaveitutankana á Öskjuhlíð segir hann – og ber að hafa í huga að endurminningunum lauk Jóhannes af sinni hálfu árið 2004:
Alfreð Þorsteinsson, formaður stjórnar Orkuveitunnar, vill breyta tönkunum í samkvæmishús eða eitthvað svoleiðis og einn þeirra hefur þegar verið gerður að vaxmyndasafni. Ég er hissa á því að svona tillögur skuli koma fram, og það meira að segja frá mönnum sem bera ábyrgð á rekstri Hitaveitunnar. Hlutverk geymanna er það sama nú og þegar þeir voru teknir í notkun. Þeir jafna rennslið frá jarðhitasvæðunum og taka toppálag þegar vatnsþörfin fer fram úr getu jarðhitasvæðanna í stuttan tíma. Þeir halda óbreyttri þjónustu við neytendur ef bilun verður í borholudælum eða aðfærsluæð þar til viðgerð lýkur. Bakrennslisgeymarnir tryggja fullt toppafl dag og nótt, hvort sem það kemur frá kyndistöðinni eða yfirheitum borholum. Þetta er öryggisbúnaður. Annað mál er svo að þennan búnað vantar að mestu í Nesjavallakerfið. Þess vegna þarf stöðugt að auka afl Nesjavallavirkjunar þótt orkunotkunin sé ekki mikil. |
Og fyrst minnst er á Nesjavallavirkjun þá fer ekki hjá því að Jóhannes Zoëga hafi eitt og annað um hana að segja í Æviminningum sínum. Hann segir til að mynda frá rannsóknum tveggja fræðimanna á svæðinu, Guðmundar Böðvarssonar jarðeðlisfræðings og Gunnars Böðvarssonar prófessors:
Fræðimennirnir líta á jarðvarmann sem námu. Náman er varmaorkan í svokölluðum grunngeymi, sem eru efstu 2.000 metrarnir af berglögum jarðhitasvæðisins. Þeir gera ráð fyrir varmastreymi frá djúpgeymi sem eru berglögin undir grunngeyminum. Guðmundur reiknar með 135 MW en Gunnar tvöfalt meira. Þetta krefst þess að orka svæðisins verði vel nýtt og sem minnstu kastað á glæ. Nesjavellir eru fyrst og fremst framtíðarorkulind fyrir hitaveituna. Afl virkjunarinnar þarf því að miðast við þörf hennar og rafmagnsframleiðslan að takmarkast við það sem samsvarar hitaveituaflinu hverju sinni. Ég tel sjálfsagt að nota bakrennslisvatn hitaveitunnar í stað kaldvatns frá Grámel. Á þennan hátt má nýta 80-90 % hrávarmans og njóta jarðhitans langt fram á næstu öld. Nú hefur stjórn Orkuveitunnar snúið þessu við, ákveðið að reisa 120 MW raforkuver sem notar 800-900 MW hrávarma í allt að 30 ár sem grunnafl í 8000 stundir á ári og nýta aðeins hluta afgangsorkunnar fyrir hitaveitu. Með þessu móti er aðeins þriðjungur hrávarmans nýttur, tveimur þriðju er fleygt, og að þrjátíu árum liðnum er holuaflið orðið helmingur þess sem það var í byrjun. Mestallt rafmagnið er selt til stóriðju og vafasamt er að verðið standi undir framleiðslukostnaði. Tapið er aðallega í formi heits vatns sem rennur niður í Nesjahraunið engum til gagns. Eftir nokkra áratugi með sama háttalagi má búast við að afl virkjunarinnar fari að minnka verulega, og nokkrir áratugir eru ekki langur tími í sögu hitaveitu eða borgar. Þá slaknar á hitanum, varminn í jörðinni gengur til þurrðar. Vatnið sem streymir gegnum heit berglögin og er notað í orkuverinu ber með sér varmann úr berginu sem kólnar um leið. Ef kæling þess er örari en varmastreymið frá djúpgeymi jarðhitasvæðisins minnkar aflið smám saman. Öll sóun jarðvarmans stríðir á móti hagfræðilegum og siðferðilegum sjónarmiðum. |
Hér talar maður sem vit hefur á umfjöllunarefninu, enda dettur íslenskum fjölmiðlum ekki í hug að segja frá því sem Jóhannes Zoëga hefur að segja um hitaveitumál í Reykjavík. En í bók hans úir og grúir af athyglisverðum athugasemdum. Jóhannes segist alls ekki geta sætt sig „við þá orkuvinnslustefnu á háhitasvæðunum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins sem nú er ráðandi hjá Orkuveitustjórnendum að framleiða sem mest rafmagn algjörlega óháð varmaþörf Hitaveitunnar. Það er orkusóun sem ekki verður leiðrétt síðar.“ Af útboðs- og forvalsmálum hefur hann sína reynslu og segir: „Eitt var þó sem olli vandræðum í einstaka tilfellum. Innkaupastofnun bæjarins sá um auglýsingar vegna útboða og val á verktökum. Undantekningarlaust var lægsta tilboði tekið. Þessu vorum við hjá Hitaveitunni ekki alltaf sammála. Flestir verktakanna reyndust vel, aðrir voru lakari eins og gengur, og enn aðrir óhæfir. Það kom nokkrum sinnum fyrir að slíta varð samningi við verktaka vegna vanefnda hans. Þannig seinkaði verkum og kostnaður jókst þegar skipta þurfti um verktaka. Ég man ekki eftir því að á þessu fengist bót allan þann tíma sem ég vann hjá Hitaveitu Reykjavíkur. Nú er oft reynt að ráða bót á þessu með forvali verktaka, en sú aðferð útilokar nýliða í verktakastétt.“
Jóhannes og Benedikt Blöndal, síðar hæstaréttardómari, fá sér í nefið. |
Þannig mætti áfram rekja dæmin úr Æviminningum Zoëga. En í bók sinni segir hann vitaskuld frá fleiru en verkfræðilegum úrlausnarefnum. Hann rifjar upp námsár sín í Þýskalandi fjórða áratugarins og segir frá því þegar hann og félagi hans fögnuðu prófi með því að fara á gott veitingahús og vita ekki fyrr en inn skálmar kanslari landsins og sest á næsta borð með umtalaðri enskri vinkonu sinni, lafði Mitford, sem reynist einnig þekkja hinn íslenska félaga Jóhannesar. Hann lýsir lífinu í Þýskalandi undir loftárásum bandamanna og hvernig hann bjargaði húsum með því að slökkva í eldsprengjum. Hann segir frá nágrönnum sínum heima í Reykjavík, mönnum eins og Jóhannesi Bjarnasyni verkfræðingi sem aldrei sló hjá sér blettinn öðruvísi en í frakka og með hatt, og Agnari Kofed-Hansen flugmálastjóra sem um hver áramót skaut upp neyðarblysum með þeirri skýringu að þau væru orðin of gömul, þó Jóhannes munu ekki til þess að nokkurt þeirra hafi ekki lýst upp allt hverfið.
Jóhannes Zoëga var ekki virkur þátttakandi í stjórnmálum þó hann hefði sínar skoðanir á þjóðmálum. Ungur sótti hann „sellufundi hjá Einari Olgeirssyni, en eftir að ég fór að spyrja spurninga um fagnaðarerindið sem hann boðaði okkur sagði hann að ég skyldi ekki mæta oftar.“ Jóhannes segir að aldrei hafi sér tekist að kjósa neinn sigurvegara í forsetakjöri. Hann studdi sr. Bjarna gegn Ásgeiri, kaus Gunnar Thoroddsen þegar Ásgeir hætti, næst kaus hann Pétur Thorsteinsson „og það var eins og við manninn mælt, hann fékk minnst fylgi allra frambjóðenda.“ Árið 1996 studdi Jóhannes fyrst Guðrúnu Pétursdóttur eins og vænta mátti, svo náskyld sem hún er konu Jóhannesar, en eftir að hún hætti við framboð studdi hann Pétur Hafstein. Sennilega náði Jóhannes aðeins einu sinni að sofna ánægður að kvöldi kosninganætur í forsetakosningum: „Árið 2004 hafði ég hins vegar gaman af því hve margir skiluðu auðu eins og ég, þá var enginn alvöruframbjóðandi í kjöri.“
Jóhannes Zoëga lést haustið 2004, 87 ára að aldri.