E
Er þetta svona einfalt og óþarft að ræða frekar? |
ru ekki örugglega allir sammála um að jörðin sé að hlýna og að stórkostleg hætta fylgi hlýnuninni? Ef marka má opinbera umræðu mætti ætla að svo væri en þó er það nú svo að fjöldi vísindamanna, stjórnmálamanna og leikmanna er annarrar skoðunar. Fjöldi manna er þeirrar skoðunar að Al Gore hafi ekkert sannað með áróðursmynd sinni um hlýnun jarðar og telur ekki að Arnold Schwarzenegger eða aðrir vinsældaknúnir stjórnmálamenn séu á réttri leið í þessum málaflokki.
Einn þeirra sem efast – eða er öllu heldur sannfærður um að fyrrnefndir menn hafi rangt fyrir sér – er John Linder fulltrúardeildarþingmaður Repúblikana frá Georgíu. Linder ritaði grein í Washington Times fyrir skömmu þar sem hann lýsir meiri áhyggjum af mögulegri kólnum jarðar en hlýnun og telur það oflátungshátt hjá mannkyninu að halda að það geti ráðið loftslagi jarðarinnar.
Linder minnist á ísborkjarna og segir þá notaða sem rökstuðning fyrir því að koldíoxíð hafi valdið hækkunum á hita jarðar en segir þá sem nota þessi rök sleppa því að nefna að hitinn hafi í gegnum tíðina hækkað á undan koldíoxíðinu í andrúmsloftinu. Þarna muni 400-800 árum og samkvæmt því hæpið að kenna koldíoxíði um hlýnun.
Hann nefnir einnig að í sögulegu samhengi sé sáralítið koldíoxíð í andrúmsloftinu nú. Það sé nú um 385 ppm (parts per million) en fyrir bæði plöntur og dýr væri þægilegra ef það væri á bilinu 2.000-3.000 ppm, líkt og þegar risaeðlurnar voru upp á sitt besta.
Á síðustu 2-3 milljónum ára hefur jörðin hlýnað og kólnað um 20 sinnum, segir Linder. Jökulskeið vara í um 100.000 ár en hlýindaskeið aðeins um 10.000 ár. Á jökulskeiðum lækkar sjávarborð en hækkar á hlýindaskeiðum og sjávarborð hefur hækkað um 2 millimetra á áratug í 8.000 ár. „Ef við erum heppin og jörðin heldur áfram að hlýna munu höfin halda áfram að rísa. Þetta kann að verða til þess að þú viljir endurreisa húsið þitt við ströndina heldur fjær sjónum, en eftir 1.000 ár viltu líklega endurreisa það hvort eð er,“ segir hann, og bendir á að með minni ís og meiri uppgufun muni uppskera bænda aukast og fæðuframleiðsla verða auðveldari.
Linder segir einnig að virkni sólar, eða sólblettir, hafi verið meiri síðastliðna öld en venjulegt sé en enginn viti hvers vegna. Virknin hafi minnkað síðasta áratuginn og enginn viti heldur hvað valdi því, en sólblettirnir séu ekki teknir með í líkönum sem spái fyrir um hlýnun jarðar. Engin hlýnun hafi átt sér stað frá árinu 1998 og vel kunni að vera að heimurinn sé á leið inn í nýtt kuldaskeið.
Engin leið er að segja til um hvort heimurinn er á leið inn í nýja ísöld eða hvort hlýskeið verður ráðandi næstu þúsundir ára. Spádómar um loftslagsbreytingar eru gífurlegri óvissu háðir og vísindarannsóknir gefa alls ekki skýrt til kynna hvert stefnir. Þrátt fyrir þetta er orðinn til nýr rétttrúnaður sem nánast útilokar öll sjónarmið á borð við þau sem lýst er hér að ofan. Þeir sem alla jafna telja sig áhugamenn um opnar lýðræðislegar umræður, til að mynda flestir fjölmiðlamenn, gera lítið sem ekkert til að fleiri sjónarmið er sjónarmið rétttrúnaðarins komist að í umræðunni. Hvernig stendur á þessu sinnuleysi gagnvart eðlilegri umræðu um loftslagsmál jarðar?