Föstudagur 24. ágúst 2007

236. tbl. 11. árg.

E itt af fyrstu baráttumálum Vefþjóðviljans og það sem hann bjóst einna síst við að kæmist í höfn er afnám alþjóðlegs banns við notkun skordýraeitursins DDT. Eitrið var bannað eftir að umhverfissinnar á borð við Rachel Carson hófu mergjaðan áróður gegn því upp úr 1960.

Bannið við DDT hefur kostar tugi milljóna manna lífið. Eitrið er eina alvöru vörnin gegn moskítóflugunni og malaríunni sem flugan ber með sér. Vesturlandabúar útrýmdu malaríu fyrir löngu með DDT en settu svo bann við því að íbúar þróunarlanda gætu nýtt sömu aðferð. Bannið var sett í nafni umhverfisverndar því menn höfðu áhyggjur af áhrifum hins þrávirka eiturs á dýralíf.

Eins og Vefþjóðviljinn hefur sagt frá aflétti Alþjóða heilbrigðisstofnunin banninu fyrir ári síðan undir formælingum umhverfisverndarsamtaka eins og Pesticide Action Network. Í The Wall Street Journal í síðustu viku er sagt frá því að samtökin hangi eins og hundur á roði á því að DDT sé gangslaust því moskítóflugan myndi þol gegn eitrinu. Blaðið vísar hins vegar í nýlega rannsókn sem birtist í tímaritinu PLoS ONE sem fjallar um heilbrigðismál. Þar mun koma fram að þegar DDT hættir að drepa fluguna hefur það áfram fælandi mátt gagnvart henni. Samkvæmt rannsókninni minnkar hættan á smiti um 73% ef heimili eru úðuð með DDT.

Umhverfissinnar reyndu meðal annars að koma í veg fyrir afnám bannsins með því að benda á önnur efni sem gætu gert sama gagn og DDT. Í skýrslunni sem blaðið vitnar til kemur fram að „en sé ófundið efni sem leyst geti DDT af hólmi.“

Margir hafa lýst því að 21. öldin verði öld umhverfismála. Það er sérlega ánægjulegt að í byrjun hennar skuli áróðri umhverfissinna gegn DDT loks hrundið að miklu leyti.

En þó ekki öllu.

Í síðustu viku ritaði Henry I. Miller læknir og fyrrum starfsmaður hjá Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna og Matvæla- og lyfjaeftirlitinu einnig grein um DDT í The Wall Street Journal. Miller lýsir áhyggjum af útbreiðslu Vestur-Nílar vírussins sem dró nær 200 Bandaríkjamenn til dauða á síðasta ári en alls veiktust 4.300 alvarlega. Hann telur að DDT sé eina nothæfa vopnið í baráttunni við þennan vágest og það eigi hiklaust að mæla með notkun þess í þeim tilgangi.

Hins vegar hefur DDT svo slæmt orð á sér að það mun reynast þrautin þyngri að koma slíkum tillögum í gegnum hið pólitíska kerfi. Það þarf því að hefjast handa án tafar. En þangað verðum við bara að dæla á okkur flugnaúða, slá frá okkur, klóra okkur og stöku sinnum að sýkjast af lífhættulegum sjúkdómi – sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir.