Fimmtudagur 23. ágúst 2007

235. tbl. 11. árg.

V efþjóðviljinn minntist á það í lok síðasta árs, að fyrsta Svíanum hefði verið skotið í geiminn. Þetta voru að sjálfsögðu miklar gleðifréttir. Menn hefðu þó mátt byrja á þessu brýna verkefni miklu fyrr.

Nema hvað, sænsku hjónin í þessari frétt hljóta að koma sterklega til greina sem fulltrúar í næsta geimskot, hvort sem niðurstaða málssóknar þeirra gegn hinu opinbera verður þeim í vil eður ei. Gengur sú málssókn út á að krefjast opinberrar framfærslu fyrir það eitt, að vilja ekki vinna. Raunar, falli málið þeim í vil, þá væri dómarinn samstundis kominn í hóp geimskotsfulltrúana.

A uglýsingarbæklingar eru alls staðar. Hér eru tvær blaðsíður úr dönskum bæklingi, sem er reyndar orðinn 2-3 ára gamall.

Hér er það þrennt sem vekur nokkra athygli. Fyrir það fyrsta eru veigarnar auglýstar, sem er bannað á Íslandi, svo fremi þær birtist ekki í innfluttum erlendum dagblöðum og tímaritum. Svo eru þessar vörur verðlagðar, líkt og sést í auglýsingunni, af meira hófi en þekkist hérlendis. Loks eru þær til sölu í venjulegum stórmörkuðum, sem er óheimilt hér á Fróni.

Eru Danir á heljarþröm vegna þessarar stöðu mála? Er allt að fara norður og niður þar vegna þess að a) það má auglýsa vín þar, b) að það er sæmilega ódýrt og c) að það er selt í stórmörkuðum þar? Að sjálfsögðu ekki. Sunnar í álfunni er vínið enn þá ódýrara og þykir ekki tiltökumál.

Hér er samt hópur fólks sem er algerlega sannfærður um, að ef fullorðnu fólki væri gefin kostur á öllu þessu hér á landi myndi allt fara hér í háaloft. Sumir benda meira að segja á óbeysið ástandið í miðbænum um helgar þessu til stuðnings. Heyra menn í sjálfum sér? Ástandið þar er eins og það er þrátt fyrir að ekkert af þessu standi til boða né hafi staðið til boða í áratugi. Hvernig stendur á því? Ætti þessu ekki að vera þveröfugt farið?

Því verður ekki neitað að vínmenningin hér er æði skrautleg. Meðal tilrauna til úrbóta má nefna algert vínbann, sem gekk að sjálfsögðu ekki vel; svo allar þessar absúrd takmarkanir á sölu þess, til dæmis var eitt sinn óheimilt að veita áfengi á miðvikudögum á veitingahúsum bæjarins; og líka heimatilbúið okur í formi áfengisgjalda. Þó er það staðreynd sömuleiðis að flestir sem neyta áfengis eru ekki að því til að búa sig undir slagsmál í Bankastrætinu.

Þessar aðgerðir til að hamla við áfengisneyslu bitna einfaldlega mest á venjulegu fólki sem vogar sér að fá sér í glas endrum og eins. Það er óþarfi að grípa til aðgerða sem gera engan greinarmun á þeim og sárafáum slagsmálahundum og ólátabelgjum. Aðgerðirnar mega að ósekju vera sértækari og beinast fyrst og fremst að hinum síðarnefndu. Og leyfa hinum stóra meirihluta vínvina að eiga góðar stundir í félagi við Bakkus í friði fyrir hinni altæku bönnum-þetta-allt-saman allsherjarlausn.