Þ
Þetta drukkna fólk er til slíkra vandræða að lögreglan hefur varla tíma til að sinna reykingabanninu. |
að er ástand í miðbænum. Stjórnmálamenn og embættismenn skeggræða nú dag og nótt hvað til bragðs eigi að taka gegn meindýrum þeim sem þar munu ganga villt. Meindýr þessi eru öðru nafni kölluð drukknir Íslendingar og allskyns háttalag þeirra mun mjög vera til þess fallið að sóa dýrmætum tíma hins opinbera, sem hefur um margt þarfara að hugsa, eins og kunnugt er. Sem betur fer hafa yfirvöldin ráð undir rifi hverju og ekki að efa að á endanum munu þau hafa fullnaðarsigur í baráttu sinni við mannlífið í miðbænum.
Fyrir nokkru komst upp að áfengisverslun ein, sem til öryggis er í eigu íslenska ríksins, og staðsett í Austurstræti hefur gert sér að leik að selja fólki eina og eina flösku af bjór sem meira að segja er hafður kaldur, sem er sérstaklega ámælisvert því þannig vilja flestir fremur drekka hann. Borgarstjórinn í Reykjavík hefur skiljanlega ákveðið að bregðast snarpt við þessu óþokkabragði ríkisins og hefur nú skrifað versluninni og óskað eftir því að hætt verði að selja bjórinn í svo þægilegum einingum og helst ekki nema volgan og ólystugan. Í nýlegu samtali við Morgunblaðið hefur borgarstjóri svo bætt því við að hann myndi ekki fara að gráta ef áfengisverslunin hyrfi alfarið úr miðborginni og er vissulega fagnaðarefni að brottflutningsáform verslunarinnar þurfi ekki lengur að stranda á því skeri. Formaður borgarráðs hefur einnig lagt sín lóð á vogarskálarnar og lagt til að Orkuveitunni verði falið að lýsa alla miðborgina upp á kvöldin, í „forvarnarskyni“, og er vonandi að sú áríðandi hugmynd komist sem fyrst til framkvæmda og miðborgin verði öll böðuð ljósum til að auka sjarma hennar og hlýju.
Meginástæðan fyrir þeim óskum borgarstjóra að áfengisverslunin í Austurstræti hætti að selja áfengt öl eins og fólk vill helst kaupa það, mun vera sú að nokkrir drykkjumenn hafi gert sig heimakomna í miðbænum og hafi ófullt fólk talsverðan ama af þessum samborgurum sínum. En hugsanlega kunna fleiri ástæður en þessi góða þjónusta áfengisverslunarinnar í Austurstræti að ráða nokkru. Það gæti jafnvel verið að það séu fleiri ástæður fyrir því að umræddir drykkjumenn eyða nú deginum í Austurstræti við svo mikla lífsgleði að jafnvel gamlir símastaurar verða grænir af öfund. Hafa þeir ekki eiginlega hrakist í Austurstrætið undan stjórnmálamönnum? Voru það ekki stjórnmálamenn sem stóðu fyrir því að skattfé var notað til þess að kaupa og loka veitingahúsinu Keisaranum við Hlemmtorg, þar sem ýmsir þessara manna vöndu komur sínar? Voru það ekki stjórnmálamenn sem stóðu fyrir því að veitingahúsið Kaffi Austurstræti missti veitingaleyfi sitt, svo ekki gátu þessir menn verið þar lengur? Þegar þessir menn hafa misst veitingahúsin sem tóku við þeim er það næsta verkefni stjórnmálamanna að banna áfengisversluninni að selja kaldan bjór. Nú skulu þeir aðeins fá bjór sem hafa efni á kippu í senn og aðeins þeir fá kaldan bjór sem fá að fara inn á veitingahús eða eiga ísskáp.