Fimmtudagur 2. ágúst 2007

214. tbl. 11. árg.

V

ið álagningu opinberra gjalda á einstaklinga fyrir árið 2006 sem kynnt var á mánudag voru menn minntir á hina gríðarlegu – en lítt sýnilegu – skattheimtu sveitarfélaganna. Á síðasta ári veiddu sveitarstjórnir landsins 87,3 milljarða króna upp úr launaumslögum landsmanna á meðan ríkið náði í 81,9 milljarða. Fyrir nokkrum árum stóðu ríki og sveitarfélög jafnfætis í þessum efnum en nú virðist sem sveitarfélögin séu að stinga ríkið af. Það skýrist af því að sveitarfélögin hafa – með ánægjulegum undantekningum á borð við Seltjarnarnes – verið að hækka útsvarið á meðan ríkið hefur lækkað sinn hluta tekjuskattsins og hækkað persónuaflslátt.

Andríki benti fyrir tveimur árum hve mikilvægt það væri að launþegar fengju upplýsingar um þessa stórtæku skattheimtu sveitarfélaganna. Þá skoraði Andríki á fyrirtæki og stofnanir að sundurliða það sem fer til ríkis og sveitarfélaga á launaseðlum. Indriði H. Þorláksson þáverandi ríkisskattstjóri mætti að því tilefni sjónvarpið og hélt því fram að þessi sundurliðun væri meiri háttar mál, gott ef ekki ómöguleg og þessar auknu upplýsingar myndu „rugla fólk“. Engu að síður gera launagreiðendur þetta nú þegar vandalaust og ekki er vitað til þess að starfsmenn þeirra verði ruglaðir af því að vita hvert tekjuskatturinn rennur.

Sveitarfélögin gera um þessar mundir kröfu um að fá líka hlut í fjármagnstekjuskatti því þau hafi ekki úr nægu fé að spila. Þó hafa þau fengið stórauknar tekjur af hlut sínum í tekjuskatti einstaklinga á undanförnum árum og fasteignagjöld hafa einnig aukið tekjur þeirra. Hvernig á líka að taka mark á svona málflutningi þegar sveitarfélögin eru á sama tíma að bjóða upp á „ókeypis“ strætisvagnaferðir, auka niðurgreiðslu á leikskólum, leggja stórfé í tónlistarhöll og færa hinum vandaða borgarstjóra Moskvu tvo gæðinga að gjöf, svo nokkur dæmi séu nefnd frá höfuðborginni?