Í hagkerfinu hefur verk, vani, framkvæmd eða lagasetning ekki aðeins ein bein áhrif heldur margvísleg áhrif. Af öllum þessum afleiðingum eru aðeins hin fyrstu merkjanleg um leið, þau eru sýnileg. Hin áhrifin koma fram síðar, þau eru ekki sýnileg og við erum heppin ef við sjáum þau fyrir. Það er aðeins eitt atriði sem skilur á milli góðra og lélegra hagfræðinga. Sá lélegi takmarkar sig við hin sýnilegu áhrif. Hinn góði tekur bæði hin sýnilegu áhrif og þau sem menn verða að reyna að sjá fyrir með í reikninginn. |
– Frédéric Bastiat, Það sem menn sjá og sjá ekki. |
H
Frédéric Bastiat |
agfræðingurinn Joseph Schumpeter sagði að enginn blaðamaður hefði gert efnahagsmálum betri skil en franski 19. aldar maðurinn Frédéric Bastiat; hann væri „snjallasti blaðamaður sem skrifað hefði um hagfræði.“
Í ritgerðinni Það sem menn sjá og sjá ekki reynir Bastiat að leiða mönnum í ljós að ýmis fix sem menn grípa til hafa meiri áhrif en akkúrat á fixið sjálft. Nú um stundir eru slík fix kölluð „mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar“ en oftast einhverju glepjandi nafni eins og „stuðningur við sprotafyrirtæki“, „atvinnuþróunarverkefni“, „nýsköpun“, „lækkun orkukostnaðar til grænmetisbænda“ eða umhverfiseitthvað.
Hefurðu orðið vitni að því, spyr Bastiat lesendur sína, hve reiður Sveinn Borgar verður þegar hinn óforbetranlegi sonur hans brýtur rúðu. Önnur vitni að atburðinum eru fljót að veita hinum óheppna borgara huggun: Slys af þessu tagi halda atvinnulífinu gangandi. Það þurfa allir sitt. Hvað yrði um gluggasmiði ef engin rúða brotnaði?
Bastiat bendir svo á að verji eigandi gluggans sex frönkum til viðgerðarinnar sé það sýnilegt að gluggasmiðurinn fái sex franka í vasann að verki loknu. Þetta telji margir til marks um að það sé gott að brjóta rúðu. Hin sýnilegu áhrif á gluggasmiðinn eru jákvæð. En það blasir ekki eins við öllum að Sveinn Borgar hefur nú ekki lengur efni á að eyða þessum sex frönkum í eitthvað annað. Hann hefði ef til vill getað hugsað sér nýja skó í stað hinna gauðslitnu sem hann verður að gera sér að góðu eða bæta fleiri bókum í bókasafn sitt. Það sér enginn það sem aldrei varð. Skósmiður eða útgefandi tapaði sex frönkum vegna rúðubrotsins.
Dæmisaga Bastiat af brotnu rúðunni leiðir svo vel í ljós hvers vegna ríki og sveitarfélög þenjast út með ógnarhraða. Þegar stjórnmálamenn kynna nýjasta fixið fyrir kjósendum sínum þá kynna þeir bara aðra hlið málsins; fæðingarorlof, tónlistarhús, fjölnota íþróttahús í hvert pláss. Allir ánægðir. Og þeir geta auðvitað bara kynnt þessa hlið málsins. Hin hliðin varð aldrei til. Nýju störfin sem urðu ekki til af því tryggingagjaldið var hækkað til að fjármagna fæðingarorlofið. Viðbygging hótelsins sem varð aldrei til að því hótelið treysti sér ekki í samkeppni við tónlistarhúsið um ráðstefnur. Einkarekna líkamsræktarstöðin sem lagði upp laupana þegar bæjarstjórinn opnaði íþróttahúsið.
Það sem er svo enn verra er að stjórnmálamenn kynna sjaldnast kostnaðinn nema til að draga skattgreiðendur á asnaeyrunum. Besta eða öllu heldur versta dæmið um það er fæðingarorlofið sem af kynningu fjármálaráðuneytisins árið 2000 að dæma stefndi í mestu varanlegu útgjaldaaukningu í síðari tíma sögu velferðarkerfisins. Þrátt fyrir að það lægi fyrir að þetta yrði mjög dýrt fór það 180% framúr áætlunum ráðuneytisins og er enn að vinda upp á sig.
Af þessum ástæðum verður barátta þeirra sem vilja takmarka umsvif ríkisins þegar erfið. Svo bætast við öflugir þrýstihópar sem herja á stjórnmálamenn. Femínistar allra flokka heimta að þegar karlar fá fæðingarorlof geti greiðslur numið milljónum á mánuði en á meðan konur voru einar um orlofið fengu þær 60 þúsund á mánuði. Unnendur klassískrar tónlistar þrýsta á um fullkominn tónleikasal í Laugardal fyrir tólfhundruð milljónir og fá á endanum tónleikahöll í höfninni fyrir tólfþúsundmilljónir.
Og eiginlega allir eiga sér áhugamál sem þeir eru til í að láta ríkið greiða fyrir. „Ríkið er goðsögnin mikla um að allir geti lifað á kostnað allra annarra.“ hafði Bastiat að segja um það mál.
Þess má geta að eitt verka Bastiat, Lögin, fæst í Bóksölu Andríkis og aðra ritsmíð hans Bænaskrána – frá framleiðendum tólgarkerta, vaxkerta, lampa, kertastjaka, ljósastaura, skarbíta, kertaslökkvara og framleiðendum tólgar, olíu, trjákvoðu og spritts og öllum sem tengjast ljósaiðnaðinum – er einnig hægt að lesa á íslensku hér á vef Andríkis.