Fimmtudagur 21. júní 2007

172. tbl. 11. árg.

A

ndríki hefur sent frá sér stutta greinargerð um skattamál undir heitinu Sneið til stjórnvalda. Þar kemur meðal annars fram að í dag 21. júní eru 47% ársins liðin en það er hlutfall tekna hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga, af vergri landsframleiðslu. Þetta hlutfall hefur aldrei verið hærra en síðustu tvö ár. Þessi mælikvarði er auðvitað ekki fullkominn og allt eins mætti nota hlutfall útgjalda hins opinbera af landsframleiðslunni til að meta umsvifin.

Þessar mælistikur segja heldur ekki alla söguna því auk þess að taka til sín svo stóran hluta landsframleiðslunnar leggja ríki og sveitarfélög alls kyns höft og íþyngjandi reglur á landsmenn. Höft í landbúnaði, bæði í framleiðslu og verslun með búvörur, eru Íslendingum til að mynda dýr. Flóknar reglur og eftirlit auka kostnað í atvinnulífinu.


Hið opinbera tekur stærstu sneiðina af heimiliskökunni.

Það kemur sjálfsagt ýmsum á óvart að þrátt fyrir lækkun á tekjuskatti einstaklinga og fyrirtækja og niðurfellingu eignarskatts skuli hið opinbera taka sífellt stærri hluta landsframleiðslunnar til sín. Megin ástæðan fyrir hinum miklu skatttekjum hins opinbera á síðustu árum er, eins þversagnarkennt og það kann að hljóma, skattalækkun á fyrirtæki og einstaklinga. Þessar skattalækkanir hafa ásamt einkavæðingu, frelsi á fjármagnsmarkaði og hagkvæmu fiskveiðistjórnunarkerfi, örvað efnahagslífið, skapað ný störf, aukið tekjur fólks og fyrirtækja og þar með stækkað þá skattstofna sem hið opinbera nýtir.

Þetta breytir því hins vegar ekki að þegar gripið var til þessara skattalækkana voru skatthlutföll almennt mjög há á Íslandi. Þrátt fyrir skattalækkanir undanfarinna ára er núverandi tekjuskattshlutfall einstaklinga (35,72%) hærra en það var þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp á níunda áratug síðustu aldar. Þar sem laun hafa hækkað mikið að undanförnu hefur lækkun skatthlutfallsins, vegna samspils skatthlutfalls og persónuafsláttar, ekki dugað til að koma í veg fyrir hækkun á heildar skattgreiðslum. Skattar hafa með öðrum orðum ekki verið lækkaðir nógu hratt til að hamla á móti tekju aukandi áhrifum skattkerfisins fyrir hið opinbera í góðæri.


Skattalækkanir undanfarinna ára hafa ekki háð að halda aftur af hinu opinbera.

Eina ráðið gegn þessum auknu skatttekjum og þeirri tilhneigingu stjórnmálamanna að auka útgjöld jafnharðan og tekjur aukast er að halda áfram skattlækkunum. Mikilvægast er að halda áfram að lækka skatthlutföll eins og tekjuskatt einstaklinga.

Gröfin hér að ofan eru fenginn úr skýrslunni sem í heild sinni má finna hér.