B
Hvaða tilraun verður gerð þegar í ljós kemur að almenningur þybbast við og neitar að leggja einkabílnum? Ætlar Kópavogsbær þá að borga fólki fyrir að taka strætisvagn? |
æjarstjórn Kópavogs ætlar að gefa öllum frítt í strætó. Ekki er ljóst hvort þeir heppnu eru þeir sem stíga í vagninn í Kópavogi eða eiga lögheimili í Kópavogi. Ef verslunareigendur í Kópavogi fengju að ráða yrðu það sennilega þeir sem færu af í voginum. Þetta mun kosta bæjarsjóð allt að 90 milljónum króna á ári. Tilgangurinn með þessari 90 milljóna króna tilraun sem kostar þar með hverja fjögurra manna fjölskyldu í bænum 12 þúsund kónur á ári er að fjölga farþegum í vögnunum. Það mun alveg örugglega takast. Krakkar sem labba nú stuttan spöl í skólann eða í gítartíma munu fara í strætó og jafnvel fara aukahring með honum á leiðinni heim. Stuttar ferðir út á leigu og í matvöruverslanir verða sömuleiðis í auknum mæli farnar í strætó í stað þess að menn labbi. Hjólreiðamenn munu hoppa oftar upp í vagninn ef það fer að rigna eða brött brekka blasir við.
En stóra spurningin er: mun einhver hætta að nota bílinn sinn af því það verður frítt í strætó? Nei. Sá sem rekur bíl fyrir mörg hundruð þúsund eða jafnvel milljónir króna á ári mun ekki hætta því þótt beinn kostnaður hans við að nota strætó fari úr nokkrum tugum þúsunda á ári niður í núll.
Langflestir íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa tekið um það ákvörðun að nota einkabíl. Það er vart hægt að misskilja mann sem ákveður að nota ferðamáta sem kostar hundruð þúsunda á ári þegar aðrir mun ódýrari standa til boða. Hann er ekkert að gera það í hugsunarleysi. Þetta hefur hinn almenni íbúi höfuðborgarsvæðisins gert. Hinn almenni sveitarstjórnarmaður er hins vegar ekki sáttur við þessa eindregnu ákvörðun hins almenna manns.
Hvað þarf eiginlega til að sveitarstjórnarmenn hætti að láta sig dreyma um að smala bíleigendum í strætó? Hvað þarf til að einhver þeirra standi upp á bæjarstjórnarfundi og segi stundarhátt: „Flest fólk er alveg eins og við öll hér inni og vill aka um á eigin bíl. Sættum okkur við það.“?