Þ ingmaður vinstri grænna, Jón Bjarnason, var í viðtali hjá morgunhananum Jóhanni Haukssyni á Útvarpi sögu á þriðjudag. Skröfuðu þeir margt og ekki verður því á móti mælt að fróðlegt var fyrir almenning að heyra viðhorf þessa þingmanns síns. Þetta á ekki síst við um Reykvíkinga, því að á þeim virðist þingmaðurinn hafa alveg sérstakt álit. Eiginlega afar sérstakt.
Er almenn samstaða um það í þingflokki VG að svipta Reykjavík öllum aflaheimildum? |
Sjávarútvegsmál voru mjög til umræðu og hafði Jón margt fram að færa í þeim málaflokki og fann að flestu. Hann kunni líka ráð við svo að segja öllu, eða alveg þar til spyrillinn vildi fá að vita hvað hann myndi gera með ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um samdrátt fiskveiða, væri hann í sporum sjávarútvegsráðherra. Þá stóð í Jóni og urðu svör hans heldur fátækleg þegar ráða við raunverulegum aðsteðjandi vanda var óskað.
En Jón hafði sem sagt alls kyns ráð almennt talað þegar kom að sjávarútveginum. Hann taldi til að mynda sjálfsagt að dreifa aflaheimildum með allt öðrum hætti um landið en nú er gert og gekk í því efni lengra en flestir aðrir menn. Hann lét sig til að mynda ekki muna um að velta því upp hvers vegna nokkrar fiskveiðiheimildir ættu yfirleitt að vera í Reykjavík. Orðrétt spurði hann útvarpsmanninn: „Hvers vegna ættu nokkrar fiskveiðiheimildir að vera í Reykjavík?“
Það er líklega ekki á hverjum degi sem þingmaður opinberar með þessum hætti skoðun sína á tilteknu sveitarfélagi. Samkvæmt gögnum Fiskistofu hefur Reykjavík, þar sem um þriðjungur landsmanna býr, tæpan tíunda hluta aflaheimilda landsins, mælt í þorskígildum. Sjósókn hefur alla tíð verið stunduð frá Reykjavík, en ef Jón Bjarnason þingmaður vinstri grænna fengi nokkru ráðið yrði líklega fljótt og örugglega settur punktur fyrir aftan þá sögu.
Fróðlegt væri ef rannsóknarblaðamenn spyrðu nokkra aðra þingmenn vinstri grænna, til dæmis Ögmund Jónasson, Katrínu Jakobsdóttur, Álfheiði Ingadóttur eða Árna Þór Sigurðsson, hvort þetta sé almennt viðhorf þingmanna flokksins. Blaðamenn hafa átt símtöl af minna tilefni.
F últ með þetta tap gegn Svíum.
Strákarnir hafa greinilega ofmetnast við að ná jöfnu gegn Liechtenstein.