Miðvikudagur 6. júní 2007

157. tbl. 11. árg.

N ú eru þeir búnir að banna fólki að reykja á kránum. Enginn veit hvað þeir banna næst – það eina sem má treysta er að þeir eru ekki hættir að banna. Þessir hreinu og tæru menn ætla nú ekki að láta einhverja lesti og ósiði í öðru fólki spilla ánægjunni fyrir Sér þegar þeir heiðra næturlífið með stuttri heimsókn.

Já næturlífið! Er nóttin ekki söm við sig, þar sem hún fær að ráða? Fyrir tæpum sextíu árum birtu Líf og list frásagnarþátt úr Lundúnum þar sem ungt íslenskt skáld hafði dvalið:

Þú vilt koma á söfnin að degi til, þegar hitinn er mestur og forsælan innan við raka veggi er komumanninum líkn. Þú vilt geta sagt, að þú hafir skoðað British Museum, Saint Paul’s og Westminster Abbey. Á heimleiðinni skrifarðu svo langa ferðapistla og birtir myndir af gömlum húsum, sem þú hefur heimsótt að degi til. Og samt hefurðu ekki hugmynd um Lundúnaborg; vegna þess að þú hefur aldrei lagt það á þig að ganga úti að nóttu til, segja um stund skilið við betri fötin þín og tekið á þig mynd fátæklings; aldrei kynnzt lífi þjófsins, svartamarkaðsbraskarans, kynhverfingsins, eiturlyfjaneytandans, skækjunnar, fjárhættuspilarans eða betlarans.

Heimsborgin er ekki glæsileg bygging, konungafólk eða trjágarður. Heimsborgin er hið gulbláa, tæra andlit næturinnar, andlitið sem aldrei lítur sólina, andlit þess sem byggir undirheima. Þau sjást innan um þúsundirnar á götunum, án þess þú takir sérstaklega eftir þeim. Það er ekki fyrr en Piccadilly og Soho hafa tæmzt af þessum sljóa og skilningslausa múg, sem gengur þar um mestan hluta sólarhringsins, að þau andlit verða eftir. Og bak við reykskýið á kránni glotta þau, talast við – á því máli sem þú ekki skilur, því þar hafa flest venjuleg orð aðra og dýpri merkingu en þér hefur auðnazt að vita; og aðeins ein synd til.

Ein synd? spyr þú. Svar: Það er sú synd að vera ekki þögull um hluti sem fólk ekki skilur, þögull um fyrirætlanir hins þrönga samheldna hóps, hvort sem þær eru svartamarkaðsbrask eða mansal, þögull um ótta þinn, sé honum fyrir að fara. Í þeim hópi er þögnin höfuðdyggð, skilningur og þekking á mannlegu eðli nauðsynlegur hæfileiki, ásamt afleiðingum þessa alls, sem er: frjálslyndi og víðsýni þess sem ekki dæmir.

Svo frjálslynd og víðsýn eru íslensk yfirvöld hinsvegar orðin að nú eru þau tekin að banna þegnum sínum sínum að skemmta sér saman með vindlingsstúf á kvöldin. Ef að þau hefðu mátt ráða hefði Elías Mar staðið með tómt munnstykkið og horft yfir reyklausa krá þar sem allir hefðu setið settlegir og prúðir; það er að segja þeir sem ekki væru berfættir heima hjá sér í fæðingarorlofi. Kynjahlutfall dyravarða væri jafnt. Á hverju bjórglasi væri límmiði frá landlækni. Hljómsveit hússins hefði jafnréttisáætlun.

Elías Mar var einn af ritfærustu Íslendingum síðustu aldar þó hans eigin ritstörf hafi heldur látið undan síga fyrir því daglega starfi að lesa prófarkir af Þjóðviljanum. Á yngri árum sat Elías hins vegar tíma í kennaraskólanum og eitt sinn gerðist það að kennarinn í íslenskum fræðum, Freysteinn Gunnarsson, fræddi áheyrendur sína á því að í íslensku væri aðeins eitt orð sem endaði á stafnum v, og væri það „bölv“, og aðeins eitt orð sem endaði á stafnum j, og væri það „grenj“. Af því væri að ráða að útilokað væri að nota orðin bölv og grenj sem rímorð í vísu. Eins og til áréttingar bætti Elías Mar þegar í stað við svolátandi ítarefni:

Allt hans tal var barlómsbölv,
brigsl og níð og vol og grenj.
Hafði þó keypt hús við Sölv-
hólsveg af amíni. Benj-