Þ að kom líklega fáum á óvart að formaður borgarráðs, Björn Ingi Hrafnsson, skyldi sýna lítinn skilning á aflamarkskerfinu í ræðu sem hann flutti á sjómannadaginn. Björn Ingi ákvað að slá nokkrar ódýrar keilur og leggja til að aflamarkskerfið yrði eyðilagt. Hann viðurkenndi að vísu að kerfið hefði gert gagn, enda pólitískur uppeldissonur þess manns sem ber hvað mesta ábyrgð á kerfinu, Halldórs Ásgrímssonar, en telur greinilega að nú sé komin upp sú staða innan Framsóknarflokksins að rétt sé að fórna sjávarútveginum fyrir aðra hagsmuni.
Skálar á Langanesi voru blómlegur verslunar- og útgerðarstaður á fyrri hluta 20. aldar. Nú er þar ekki annað en nokkrar húsarústir, leifar af bryggju – og fallegur ferðamannastaður. |
Björn Ingi velti upp þeirri hugmynd í ræðu sinni að þegar þorskstofninn færi að braggast á ný, ætti ekki að skipta auknum heimildum upp í hlutfalli við kvótaeign, heldur ætti að taka ákvarðanir um úthlutun út frá einhverjum allt öðrum forsendum, sem felur í sér að aukin völd til úthlutunar væru færð til stjórnmálamanna. Þetta er auðvitað draumur þess sem langar að útdeila bitlingum um allt land, en um leið martröð þeirra sem vilja hagkvæman rekstur og réttlátt kerfi.
Nú er útlit fyrir að enn einu sinni verði að skera niður aflaheimildir og hvernig skyldi það þá vera gert. Gæti verið að niðurskurðurinn væri hlutfallslegur og að þeir sem hefðu mestu heimildirnar misstu mest? Vitaskuld er það hin almenna og um leið eðlilega regla við slíka ákvörðun. En er þá ekki eðlilegast að þeir sem tóku á sig mesta skerðingu fái að njóta þess í réttu hlutfalli þegar unnt er að auka aflann á ný? Eða er réttlátt að taka af þeim í réttum hlutföllum við kvótaeign þeirra en útdeila svo aukningunni í samræmi við geðþótta Björns Inga eða annarra stjórnmálamanna? Lætur sér einhver koma til hugar að það yrði hin hagkvæma og réttláta leið? Nei, líklega ekki.
Í umræðunni um niðurskurð kvótans og hættuna af niðurskurðinum fyrir sumar byggðir landsins lítur út fyrir að sumir hafi heldur óvíða farið. Svo virðist sem ýmsir þeir sem tjá sig um byggðaþróun telji að þeir þéttbýliskjarnar sem nú eru um landið hafi alltaf verið þar sem þeir eru og að aldrei hafi verið þéttbýli annars staðar en það er nú. Staðreyndin er þó sú að um allt land er að finna leifar af byggð sem um tíma stóð í blóma en er nú ekkert annað en yfirgefin hús eða húsarústir.
Sjávarpláss hafa lifnað og dáið og sum þeirra hafa nánast verið verstöðvar sem hafa byggst upp við ákveðnar aðstæður en hafa svo ekki þótt lífvænleg þegar aðstæður breyttust. Fólk kemur og fer og við það er ekkert að athuga, þó að þeim sem alist hafa upp á slíkum stöðum kunni vissulega að þykja sárt að sjá þá leggjast af. Næsta víst er að sumir núverandi þéttbýliskjarna eigi ekki lengur rétt á sér og að eðlilegast sé að þeir leggist af. Til lengdar er engum greiði gerður með því að niðurgreiða byggðarlagið sem hann býr í enda lítið varið í að búa við það að verða að treysta á velvild stjórnmálamanna um afkomu sína og framtíð.
Það er löngu tímabært að menn horfist í augu við breytta atvinnuhætti og leyfi byggðarlögum sem ekki bera sig að leggjast af. Eins og þau hafa alltaf gert og eiga að gera.